Karlmaður á fertugsaldri varð fyrir grófri líkamsárás á laugardagsmorgun við heimahús á Akureyri. Visir.is sagði fyrst frá.
Að sögn mannsins var ráðist á hann með barefli og eggvopni. Hann var síðan fluttur nauðugur og meðvitundarlaus upp í Glerárdal ofan við Akureyri. Göngufólk fann manninn og tilkynnti um hann til lögreglu. Hann fannst með mikla áverka. Hann var búinn að missa á annan lítra af blóði og var fluttur rænulítill á sjúkrahús.
Sá sem talinn er hafa ráðist á manninn og veitt honum áverkana á laugardagsmorgninum var handtekinn fljótlega. Hefur hann nú verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudags, til að tryggja rannsóknarhagsmuni vegna líkamsárásarinnar. Talið er að tveir til þrír aðrir hafi komið að því að flytja manninn nauðugan og særðan upp í Glerárdal, úr alfaraleið.
Að sögn lögreglu miðar rannsókn málsins vel og líklegt að manninum sem situr í gæsluvarðhaldi verði sleppt fyrir föstudag. Mennirnir sem eru sakaðir um að hafa verið að verki og flutt fórnarlambið í Glerárdal hafa allir komið við sögu lögreglu áður. /EPE