Fangelsið á Akureyri er yfirfullt

Fangelsið á Akureyri er fullmannað þessa dagana og gott betur. Allt pláss er fullnýtt og menn í afplánun dúsa í gæsluvarðhaldsklefum og aukaklefum. Gestur Davíðsson, yfirfangavörður, segir fleiri fanga vera í fangelsinu enn í upphafi stóð til. Hann segir ekki sé farið að tvímenna í klefum og alls óvíst sé hvort af því verður á næstunni.  

Gestur segir kerfið vera að springa vegna fjölda fanga. „Það er mjög þröngt hérna orðið og ljóst að það er ekki endalaust hægt að bæta við fólki," segir Gestur. Guðmundur Gíslason, forstöðumaður fangelsisins, segir að umræðan um að tvímenna í klefum í fangelsinu á Akureyri hafi einungis átt við einn klefa. „Það verður ekki tvímennt í klefa nema í algjörri neyð og þá er einungis verið að tala um einn klefa sem er töluvert stærri en hinir og þarna er verið að tala um tímabundið ástand ef á þarf að halda. Annað er ekki á dagskránni," segir Guðmundur. 

Nýjast