Fallslagur í Þórsvelli í dag

Þór og Víkingur R. mætast á Þórsvelli í dag kl. 17:00 þegar tólfta umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu fer af stað. Leikurinn er afar mikilvægur fyrir bæði lið sem eru að berjast í neðri hluta deildarinnar. Þór hefur ellefu stig í tíunda sæti deildarinnar og er fjórum stigum frá fallsæti en þar sitja Víkingur R. og Fram, Víkingur með sjö stig í ellefta sæti og Fram með sex stig á botninum. „Þetta verður leikur númer tvö í mikilli heimaleikjatörn hjá okkur og þar eru þrjú stig í boði sem við ætlum okkur til þess að skilja okkur ennþá lengra frá fallsæti,“ segir Þorsteinn Ingason fyrirliði Þórs.

„Víkingur er með fínt lið en þeir hafi ekki verið að spila eins vel og þeir geta. Við vonum bara að þeir fari ekki að detta í neinn rosalegan gír hérna í dag,“ segir Þorsteinn.

Þeir Atli Sigurjónsson og Jóhann Helgi Hannesson verða báðir í banni í dag og því fjarri góðu gamni. Víkingar mæta einnig lemstraðir til leiks en þeir Halldór Smári Sigurðsson og Þorvaldur Sveinn Sveinsson verða báðir í banni. Þetta verður fyrsti leikur Víkings undir stjórn nýs þjálfara, Bjarnólfs Lárussonar.

Alls fara fimm leikir fram í Pepsi-deildinni í dag. Auk leiksins á Þórsvelli mætast Fram og ÍBV á Laugardalsvelli, Grindavík og Fylkir á Grindavíkurvelli, Stjarnan og Keflavík á Stjörnuvelli og KR og Breiðablik eigast við í Vesturbænum. Tólfta umferðin klárast svo á morgun þegar þegar FH tekur á móti Val.

Nýjast