Fallegir og kröftugir tónar bárust úr miðbæ Akureyrar

Það barst fallegur söngur úr miðbæ Akureyrar uppúr kl. 10 í morgun, þegar þar komu saman hátt í 1500 leik- og grunnskólanemendur í bænum. Yfirskrift þessa skemmtilega uppátækis er Söngdagar og verður það endurtekið á sama tíma eftir viku, föstudaginn 23. mars. Það gekk ótrúlega vel að koma öllum börnunum fyrir í Skátagilinu og þar fyrir neðan og þá var söngurinn kraftmikill og góður. Fjöldi fólks mætti í göngugötuna til að þess að hlýða á söng barnanna. Söngdagarnir eru skipulagðir af starfsfólki leik- og grunnskóla Akureyrar og eru haldnir í tilefni af 150 ára afmæli bæjarins en sjálfur afmælisdagurinn er 29. ágúst.  Staðið hafa yfir miklar æfingar í skólunum síðustu mánuði þar sem tónstiginn hefur komið að góðum notum í upphituninni. Krakkarnir sungu lög á borð við “Akureyri og norðrið fagra”, “Snert hörpu mína” og “Krummi svaf í klettagjá”.

 

Nýjast