Fálki gripinn í dúfnakofa

Gummi Lilla með fálkann áður en honum var sleppt. Mynd: GAukur Hjartarson.
Gummi Lilla með fálkann áður en honum var sleppt. Mynd: GAukur Hjartarson.

Guðmundur Þráinn Kristjánsson, oftast kallaður Gummi Lilla er með bréfdúfur í kofa við Ásgarð á Húsavík en hann sagði í samtali við Vikublaðið að hann sé búin að stunda þetta sport í fjöldamörg ár.

Fyrir skemmstu beið hans óboðinn gestur í dúfnakofanum eins og meðfylgjandi myndir sem Gaukur Hjartarson tók bera með sér en þar gekk hann fram á fálka sem var að seðja hungur sitt. Hann sagði þó að honum hafi lítið brugðið við aðkomuna. „Nei ég er vanur svona kvikindum. Þetta er alltaf að sniglast eitthvað í kringum mig.“

Fálki

Gummi var ekki í miklum vandræðum með að handsama fálkann sem var búinn að éta eina dúfu. „Nei ég setti bara á mig þykka hanska, hann réðst á mig reyndar en ég er stærri og sterkari, þannig að þetta slapp til,“ segir hann og hlær.

Gummi er búinn að stunda bréfdúfusportið í á tólfta ár og er með um 70 fugla, 40 keppnisfugla og svo undaneldispör. „Fálkinn náði bara einni, hann var búinn með hana og var sennilega að fara gæða sér á næstu þegar ég mætti á svæðið,“ segir Gummi og bætir við að fálkinn hafi líklega bara verið nýkominn inn í kofann. „Hann er samt búinn að vera hérna í allan vetur og tók nokkrar hænur frá mér,“ segir hann og bætir við aðspurður að hann hafi áður verið með talsvert af hænum. „Ég var með margar hænur en þær eru að verða gamlar. Þetta eru svona gæludýr bara en ég fæ eitthvað af eggjum undan þessu.“

Gummi er sem fyrr segir búinn að stunda sportið lengi og segir að í dag sé einn annar í sportinu hér á Húsavík og annar að bætast í hópinn. „Svo eru nokkrir Dalvíkingar og Akureyringar í þessu. Bréfdúfnafélag Húsavíkur var stofnað árið 2012 en það eru aðallega Akureyringar í því félagi,“ segir hann og hlær

Gummi tók þátt í nokkrum keppnum síðast liðið sumar og vann til gullverðlauna í tveimur þeirra. Hann stefnir á frekari keppni komandi sumar. „Keppnin fer þannig fram að það er mæld bein fluglína yfir í kofann frá þeim stað sem keppt er frá. Sá fugl sem er fljótastur að fljúga þessa kílómetra vinnur. Svo safnast saman stig en 20% af fuglunum sem keppa fá stig. Verðlaun eru veitt fyrir efstu þrjú sætin og sá fugl sem safnar flestum stigum yfir sumarið er krýndur íslandsmeistari,“ útskýrir Gummi.

Þá segir hann að fuglarnir hafi býsna gott úthald og geti hæglega flogið þvert yfir Ísland ef því er að skipta. „Það eru ekki margir í þessu en við erum nokkrir þverhausar, þetta er skemmtilegt hobbý,“ segir Gummi Lilla að lokum.


Athugasemdir

Nýjast