Fáir komnir á tjaldsvæði Akureyrar

Fáir gestir eru á tjaldstæðunum á Akureyri enn sem komið er bæði við Hamar og á Þórunnarstræti. „Það er ekkert roslega mikið af fólki komið og þetta er bara svipað núna og um venjulega daga,” segir Tryggvi Marínósson umsjónarmaður tjaldsvæðanna, en hátíðin "Ein með öllu og allt undir" fer senn að ganga í garð. Tryggvi á þó von á að töluverður fjöldi fara að streyma á tjaldssvæðin í dag en erfitt sé að spá fyrir um fjölda gesta um helgina.

„Það er búið að vera smá reitingur en maður veit ekkert hvað maður á von á mörgum gestum í ár, maður rennur alveg blint á sjóinn með það og er það aðallega útaf veðrinu. Það spilar mjög inn í því fólk fer mikið eftir veðrum og vindum." Tryggvi segir ennfremur að þegar veðurspáin er jafn tvísýn og hún er um þessa helgi, þá bíði fólk lengur með að fara af stað. „Menn bíða fram í lengstu lög með að fara, en fólk gæti farið að detta inn í dag eða á morgun. Við erum ekkert að ímynda okkur að það komi ægilegur fjöldi en við erum sannarlega vel undir það búin að taka á móti fullt af fólki og vonum bara að það verði fjölmennt," segir Tryggvi.

Nýjast