Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum hefur verið gefin út.
Mælst er til þess í reglugerðinni að starfrækt verði sérstakt fagráð í eineltismálum sem verður ráðgefandi í málum sem ekki leysast innan skóla. Slíkt fagráð hefur verið starfrækt fyrir grunnskóla og gefið góða raun. Gert er ráð fyrir að fagráðið verði stofnað innan skamms. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Reglugerðin er byggð á ákvæðum laga og aðalnámskrár en með skýrum fyrirmælum og leiðbeiningum sem ætlaðar eru til stuðnings og hagsbóta fyrir alla aðila framhaldsskólasamfélagsins.
“Í ágúst 2012 voru gerðar breytingar á lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 þar sem bætt var við tveimur greinum, 33. a. um ábyrgð nemenda og 33. b. um skólabrag og þar með var komin lagastoð fyrir reglugerð. Í skýringum með frumvarpinu var lögð áhersla á að tryggja réttindi nemenda til náms og velferðar í skólum og um ábyrgð og skyldur allra aðila skólasamfélagsins til að skapa góðan skólabrag, til dæmis með tilliti til aðgerða gegn einelti í skólum,” segir jafnframt í tilkynningunni. /epe.