Fagnaði 100 ára afmæli

Álfheiður og Ásthildur spjalla saman í afmælisboðinu. Á milli þeirra er sonarsonur Álfheiðar, Jón Pá…
Álfheiður og Ásthildur spjalla saman í afmælisboðinu. Á milli þeirra er sonarsonur Álfheiðar, Jón Páll Haraldsson. Mynd/Akureyri.is

Álfheiður Jónsdóttir á Akureyri fagnaði nýlega 100 ára afmæli. Af því tilefni heimsótti Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri hana og færði henni blómvönd frá bæjarstjórn Akureyrar.

Á vef Akureyrarbæjar segir að Álfheiður hafi fæðst á Akureyri og hafi búið þar alla sína tíð. Árið 1945 eignaðist hún soninn Harald Karlsson sem lést árið 2016. Hún býr nú á Öldrunarheimili Akureyrar og fagnaði afmælinu með afkomendum, ættingjum og vinum í samkomusal Hlíðar.

Álfheiður var einn af eigendum skóbúðarinnar Lyngdals á Akureyri og starfaði þar um tíma sem og í glerdeildinni í Amaró. Hún var mikil útivistarkona og undi sér best á fjöllum. Hún var mikill skíðagarpur og varð m.a. Íslandsmeistari kvenna í bruni þegar hún keppti fyrir ÍBA á skíðalandsmóti árið 1946.

Fjallamennskan átti ætíð hug Álfheiðar allan og hún var virkur félagi í Ferðafélagi Akureyrar. Í viðtali við Margréti Þóru Þórsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu í gær segir Álfheiður m.a.: "Það er dýrlegt að vera til upp til fjalla, í hreinu og tæru lofti og upplifa friðsældina." Viðtalinu í Morgunblaðinu lýkur hún með þessari stöku:

Ég hef gengið langa leið,
hátt um fjöll og dali.
En það er liðið æviskeið,
nú geng ég bara um sali.


Nýjast