Færeyingar lögðu Íslendinga að velli í landskeppni í skák

Færeyingar sigruðu Íslendinga í landskeppni í skák sem fram fór á Húsavík og Akureyri um helgina. Færeyingar fengu samtals 12,5 vinninga en Íslendingar 9,5 vinninga. Þetta er í annað sinn í röð sem Færeyingar leggja Íslendinga að velli í landskeppni. Færeyingar náðu forystu strax eftir fyrri daginn, þegar telft var á Húsavík á laugardag. Þeir fengu þá 6 vinninga gegn 5 vinningum Íslendinga.  

Halldór Brynjar Halldórsson, Rúnar Sigurpálsson, Sigurður Arnarson og Mikael Jóhann Karlsson unnu skákir sínar en jafntefli gerðu þeir Áskell Örn Kárason og Jakob Sævar Sigurðsson. Seinni umferðin fór fram í Hofi á sunnudag og þar gáfu Færeyingarnir ekkert eftir og lönduðu nokkuð öruggum sigri. Rúnar Sigurpálsson vann sína skák í Hofi og hann var sá eini í íslenska liðinu sem vann báðar sínar skákir en alls tefldu sjö íslenskir skákmenn í báðum umferðum. Viðar Jónsson vann einnig sína skák í seinni umferðinni en jafntefli gerðu þeir Áskell Örn, Hjörleifur Halldórsson, Jakob Sævar og Jón Kristinn Þorgeirsson, sem er aðeins 11 ára gamall. Jóni Kristni var teflt fram í seinni umferðinni og hann varð þar með langyngsti keppandi sem tekið hefur þátt í landskeppninni frá upphafi og sá yngsti sem nokkru sinni hefur teflt hefur fyrir Íslands hönd í keppni þar sem ekki er raðað í aldursflokka. Áður en sest var að tafli í Hofi tóku færeysk-íslensku snillingarnir Jógvan Hansen og Friðrik Ómar nokkur létt lög fyrir skákmennina og gesti.

Nýjast