Fær syndaaflausn frá Fjármálaeftirlitinu!

Höfuðstöðvar Sparisjóðsins í Reykjadal.
Höfuðstöðvar Sparisjóðsins í Reykjadal.

Í febrúar s.l. gerði Fjármálaeftirlitið  ýmsar athugasemdir við starfsemi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga.  Taldi m.a. verklag sjóðsins varðandi útlán ekki í samræmi við  ákvæði laga og reglna varðandi eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja.  Ennfremur að fundargerðir Sparisjóðsins  bæru ekki með sér að stjórn hans hefði sinnt eftirlitshlutverki sínu eða fjallað með reglubundnum hætti um vanskil.

Stjórn Sparisjóðsins brást hart við þessum að hennar mati ómaklegu umvöndunum og sendi frá sér  yfirlýsingu þar sem m.a.  kom fram að fyrirmæli í reglum FME  um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti væru matskennd og æskileg  mælanleg viðmið hefðu ekki verið gerð opinber. Órökstudd viðmið sjóðsins geri hinsvegar lánafyrirgreiðslu til atvinnustarfsemi á landsbyggðinni nær útilokaða að mati sparisjóðsins. Lokaorð yfirlýsingar Sparisjóðsins voru eftirminnileg:  “Að lokum má nefna að Sparisjóður Suður Þingeyinga var eitt fárra fjármálafyrirtækja sem komst gegnum bankahrunið án aðstoðar, sem ef til vill segir meira um starfshætti sjóðsins en áðurnefnd gagnsæistilkynning.”

Svo virðist sem Fjármálaeftirlitið hafi nú fallist á þennan málfutning stjórnar Sparisjóðsins, því 27. maí s.l. sendi FME  frá sér eftirfarandi tillkynningu þar sem verulega er horfið frá fyrra viðhorfi og sem vel má túlka sem syndaaflausn til handa Sparisjóðnum:

“Fjármálaeftirlitið birti gagnsæistilkynningu á heimasíðu sinni hinn 10. febrúar 2016 þar sem gerð var grein fyrir niðurstöðum athugunar Fjármálaeftirlitsins á útlánum hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga ses.

Vegna misvísandi fjölmiðlaumfjöllunar í kjölfar birtingar framangreindrar gagnsæistilkynningar tekur Fjármálaeftirlitið fram að Sparisjóður Suður-Þingeyinga ses. hefur brugðist við öllum athugasemdum eftirlitsins innan settra tímamarka samkvæmt skýrslu innri endurskoðanda sjóðsins sem barst Fjármálaeftirlitinu í maí 2016 og er það mat eftirlitsins að fullnægjandi úrbætur hafi verið gerðar af hálfu sparisjóðsins.” /JS

Nýjast