Fæðisgjald í grunnskólum Akureyrar hækkar um 7% um áramótin

Brekkuskóli á Akureyri.
Brekkuskóli á Akureyri.

Í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir næsta ár er gert ráð fyrir 2,5% hækkun leikskólagjalda um áramótin og 7% hækkun á fæðisgjaldi í grunnskólunum. Rósa Njálsdóttir hjá Miðflokknum mótmælti þessu á síðasta fundi fræðsluráðs.

„Þar sem Miðflokkurinn er fylgjandi því að skólamáltíðir í grunnskólum eigi að vera gjaldfrjálsar get ég ekki verið samþykk 7% hækkun á fæðisgjöldum. Þess í stað vil ég fara þá leið að hagræða enn frekar í hráefniskaupum og reyna að lækka kostnað mötuneytanna m.a. með því að minnka matarsóun,“ segir í bókun Rósu.

Í bókun meirihluta fræðsluráðs er vakin athygli á að markmiðið hefur verið að fæðissala standi undir öllum kostnaði við rekstur mötuneyta, þ.e. hráefni, launum, rafmagni (1%), viðhaldi (2%) og afborgun stofnkostnaðar (4%). „Til þess að ná markmiðinu þyrfti að hækka gjaldskrána um 16%-17% í stað 2,5%. Ákveðið er að fæðisgjald í grunnskólunum fyrir árið 2021 standi aðeins undir hráefni og launakostnaði, en ekki undir öðrum kostnaði og tekur því undir 7% hækkun fæðisgjalds,“ segir í bókun fræðsluráðs.


Athugasemdir

Nýjast