Fæðingum fjölgar fyrstu mánuði ársins

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri.

Fæðingum á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) fjölgar á milli ára en á fyrstu tveimur mánuðum ársins fæddust 82 börn samanborið við 54 á síðasta ári; fjölgun um 28 börn.

„Þetta eru aðeins fleiri fæðingar í janúar og febrúar en við erum vön að sjá,“ segir Ingibjörg Hanna Jónsdóttir yfirljósmóðir á fæðingardeild SAk í svarið við fyrirspurn blaðsins. Hún segir þetta þó ekki vera met í fæðingum. „Við grínumst svolítið með að þetta séu fæðingar tengdar fyrstu bylgju Covid-19. En líklega er þetta tilviljun,“ segir Ingibjörg ennfremur.

Fram kemur á vef Sjúkrahússins að starfsemi fyrstu tvo mánuði ársins fari vel af stað. Legudagar á bráðadeildum eru með áþekkum hætti og á sama tíma í fyrra. Sama má segja um komur á dag- og göngudeildir, rannsóknir og skurðaðgerðir. Komum á bráðamóttöku fækkar um 8% og fjöldi sjúkrafluga var 95 en voru 111 árið áður.


Nýjast