FA hefur umsjón með 100 fasteignum og 260 leiguíbúðum

Verðmesta eign Fasteigna Akureyrarbæjar er Hof, en húsið kostaði rúma 3,5 milljarða króna í byggingu…
Verðmesta eign Fasteigna Akureyrarbæjar er Hof, en húsið kostaði rúma 3,5 milljarða króna í byggingu.

Rekstur Fasteigna Akureyrarbæjar er umfangsmikill sem fyrr og hafa þær umsjón með um 100 fasteignum, auk 260 leiguíbúða.  Heildarflatarmál eigna sem eru í umsjá FAK eru rúmlega 130.000 m², þar af um 25.000 m² í íbúðarhúsnæði. Stærsta einstaka eignin að flatarmáli er Boginn, sem er ríflega 9.000 m².  Verðmesta eign Fasteigna er menningarhúsið Hof, en það kostaði rúma 3,5 milljarða í byggingu. 

Í framkvæmdaáætlun Fasteigna Akureyrarbæjar er gert ráð fyrir að framkvæmt verði fyrir rúmlega 1,5 milljarð króna á árinu 2012 en framkvæmdir á núverandi ári eru um 790 milljónir króna, sem er um 330 milljónum minna en gert var ráð fyrir. Skýrist það fyrst og fremst af því að framkvæmdir við Naustaskóla og Hjúkrunarheimili hafa ekki verið eins miklar og ráð var fyrir gert. Þetta kom fram í máli Geirs Kristins Aðalsteinssonar forseta bæjarstjórnar við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Akureyrabæjar 2012, á síðasta fundi bæjarstjórnar.

“Haldið verður áfram með Hjúkrunarheimili við Vestursíðu og áætlað er að því ljúki á haustmánuðum 2012.  Er það framkvæmd samkvæmt samkomulagi við ríkið um ný hjúkrunarpláss í stað Kjarnalundar. Áætlaður heildarkostnaður við verkið er um 1.100 milljónir, en gert er ráð fyrir að framkvæma fyrir um 610 milljónir króna árið 2012. Ríkið mun síðan endurgreiða 85% af byggingarkostnaði í formi leigu næstu árin. Einnig er gert ráð fyrir að halda áfram uppbyggingu Naustaskóla og reiknað með að framkvæmt verði fyrir um 610 milljónir á árinu 2012,” sagði Geir.

Síðari umræða um fjárhagsáætlun Akureyrar fer fram í bæjarstjórn seinni partinn í dag.

Nýjast