Eyþór Ingi tilnefndur til Grímunnar
„Þetta er einstaklega skemmtilegt þar sem margir komu að þessari sýningu í haust og stóðu sig öll með prýði. Við hjá Leikfélaginu erum mjög stolt og þakklát öllum þeim snillingum sem komu að uppsetningunni á Rocky Horror og þau eru öll sigurvegarar í okkar augum,“ segir María leikhússtjóri
Eyþór Ingi er með mörg járn í eldinum um þessar mundir. „Það er ofboðslegur heiður að fá þessa tilnefningu og
hefur mikla þýðingu, bara stórkostlegt,“ segir Eyþór Ingi. „Ný plata með Todmobile er svo væntanleg í haust þar
sem ég er orðinn meðlimur og verða útgáfutónleikarnir í Hörpunni 30. október.“ Eyþór á einnig von á
sínu fyrsta barni í október með sambýliskonu sinni og ný plata með hljómsveit hans, Eldberg, er að koma út á geisladisk og
gamaldags vínilplötu nú um þessar mundir, svo þessi ungi maður sem er ekki nema 22ja ára hefur í nægu að snúast næstu
mánuðina.
„Það er einstaklega gaman að fylgjast með honum vaxa í þessum bransa. Hann er mjög hæfileikaríkur og einstakt ljúfmenni, svo
það er dásamlegt að vinna með honum, enda hefur hann ekki síður slegið í gegn hjá samstarfsfólki sínu en
áhorfendum,“ segir María leikhússtjóri að lokum. Leikstjóri Rocky Horror var Jón Gunnar Þórðarson og
tónlistarstjóri Andrea Gylfadóttir. Fríður flokkur þekktra leikara og söngvara tóku þátt í sýningunni fyrir utan
Eyþór Inga; Magnús Jónsson, Andrea Gylfadóttir, Bryndís Ásmundsdóttir, Atli Þór Albertsson, Jana María
Guðmundsdóttir, Guðmundur Ólafsson, Hjalti Rúnar Jónsson og Matthías Matthíasson. LA gaf tónlistina úr Rocky Horror út á
geisladiski og fæst hann í hljómplötuverslunum um land allt. Leikfélag Akureyrar hefur í gegnum tíðina fengið fjölda tilnefninga til
Grímunnar á ári hverju og m.a. hlotið Grímuna fyrir sýningarnar Oliver!, Ökutíma og Fló á skinni. Í fyrra hlaut gamanleikurinn
39 þrep Grímuna sem "Áhorfendasýning ársins".
Nokkrum dögum fyrir hátíðina gefst almenningi kostur á að taka þátt í símakosningu en Grímuhátíðin verður haldin í Borgarleikhúsinu 16. júní nk. og bein útsending á Stöð 2 hefst kl. 19.30.