Eyfirðingum eru ætlaðar 5,3 milljónir króna í styrki frá menntamálaráðuneytinu til menntaverkefna sem mótvægi við aflasamdrætti. Þetta er lang lægsta heildarupphæð styrkja til nokkurs landsvæðis, næstum helmingi minna en ætlað er til Þorlákshafnar sem er næst lægst.
Þá er þetta næstum sex sinnum minna en ætlað er að veita til Vestmannaeyja sem mun fá mestan stuðning eða allt að 29 milljónir króna. Þetta er nokkuð í samræmi við það sem sjávarútvegsráðherra segir í Vikudegi í gær, að ekki séu uppi áform um sérstakar mótvægisaðgerðir til handa Eyfirðingum vegna kvótasamdráttar.
Menntamálaráðherra hefur ákveðið að veita allt að 180 m.kr. til menntaverkefna á landsbyggðinni sem eru þáttur í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna tímabundins aflasamdráttar. Menntamálaráðherra hefur ákveðið að veita allt að 180 m.kr. til menntaverkefna á landsbyggðinni sem eru þáttur í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna tímabundins aflasamdráttar. Veittir verða styrkir til 59 verkefna að þessu sinni. Við undirbúning styrkveitinga voru símenntunarmiðstöðvar og framhaldsskólar á landsbyggðinni skilgreind sem samstarfsaðilar verkefna sem undirbúin voru í samráði við hagsmunaðila á viðkomandi svæði (stéttarfélög, fyrirtæki og sveitarfélög). Áhersla var lögð á að styrkja menntunarverkefni sem væru til þess fallin að mæta afleiðingum samdráttar í fiskveiðum og fiskvinnslu. Menntamálaráðuneyti hafði samráð við iðnaðarráðuneyti sem gekkst fyrir greiningu Byggðastofnunar á afleiðingum aflasamdráttar eftir sveitarfélögum um land allt. Jafnframt var ákveðið að leggja sérstaka áherslu á þróunarverkefni til lengri tíma í Vestmannaeyjum og á Höfn í Hornafirði í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Heildarupphæð styrkja sem ákveðnir hafa verið skiptist þannig á milli svæða.
Suðurnes: 20.2 m.kr.
Vesturland: 16.6 m.kr.
Vestfirðir: 24.2 m.kr.
Norðurland vestra: 12.0 m.kr.
Eyjafjörður: 5.3 m.kr.
Þingeyjarsýsla: 12.0 m.kr.
Austurland: 24.9 m.kr.
Hornafjörður: 25.0 m.kr.
Suðurland (Þorlákshöfn): 10.2 m.kr.
Vestmannaeyjar: 29.0 m.kr.