Evrópski fjárfestingabankinn og Landsvirkjun semja um fjármögnun Þeistareykjavirkjunar

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Cristian Popa, framkvæmdastjóri hjá Evrópska fjárfesti…
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Cristian Popa, framkvæmdastjóri hjá Evrópska fjárfestingabankanum, rituðu undir lánssamninginn.

Evrópski fjárfestingabankinn (EIB) hefur undirritað lánssamning að fjárhæð 125 milljónir evra við Landsvirkjun til fjármögnunar á nýrri jarðvarmavirkjun og borholum á Þeistareykjum.

Fjármögnunin verður nýtt til þess að styðja við hönnun, byggingu og rekstur nýrrar 90 MW jarðvarmavirkjunar Landsvirkjunar á Þeistareykjum. Þeistareykir eru um 30 km suðaustur af Húsavík á Norðausturlandi, þar sem níu vinnsluholur með 50 MW afkastagetu hafa þegar verið boraðar og prófaðar.

Cristian Popa, sem er framkvæmdastjóri og yfirmaður verkefna fjárfestingabankans í ríkjum EFTA, hafði eftirfarandi að segja um framkvæmdirnar: „Ísland nýtur mikillar sérstöðu að því er varðar endurnýjanlegar orkulindir og það er stórkostlegt að fylgjast með hvernig Landsvirkjun nýtir þessa sérstöðu til fulls. Það er bankanum mikil ánægja að geta stutt við þetta mikilvæga orkuverkefni, sem er gott dæmi um stuðning bankans við orkugeirann um alla Evrópu. Þekking Íslendinga á þessu sviði er í fremstu röð og framkvæmdir á Íslandi eru í raun fyrirmynd jarðvarmaverkefna um heim allan.“

„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir Landsvirkjun og við erum þakklát fyrir stuðninginn sem Evrópski fjárfestingabankinn sýnir endurnýjanlegri orku á Íslandi. Evrópski fjárfestingabankinn hefur áður sýnt öflugan stuðning sinn með því að útvega fjármagn til skynsamlegra og sjálfbærra verkefna í Evrópu og við lítum á samning þennan sem traustsyfirlýsingu við fyrirtæki okkar,“ bætti Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, við.

Lánið er fyrsta verkefni Evrópska fjárfestingabankans á Íslandi frá því árið 2011, þegar bankinn lánaði 70 milljónir evra, einnig til Landsvirkjunar, til byggingar á Búðarhálsvirkjun á Suðurlandi, þegar Tungnaá og Kaldakvísl voru virkjaðar. Verkefni af þessu tagi skipta sköpum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum með stuðningi við nýtingu endurnýjanlegra orkulinda, en það er eitt af forgangsmálum Evrópska fjárfestingabankans. Á síðasta ári var meira en fjórðungur verkefna sem nutu stuðnings Evrópska fjárfestingabankans í formi verkefna sem stuðla að verndun umhverfisins.

 

Nýjast