Eskja í samstarf með Skógræktinni um kolefnisbindingu

Meðfylgjandi mynd var tekin á aðalskrifstofu Skógræktarinnar í vikunni þegar samningurinn hafði veri…
Meðfylgjandi mynd var tekin á aðalskrifstofu Skógræktarinnar í vikunni þegar samningurinn hafði verið undirritaður. Frá vinstri: Gunnlaugur Guðjónsson, sviðstjóri rekstrarsviðs Skógræktarinnar, Páll Snorrason, framkvæmdastjóri rekstrar- og fjármálasviðs Eskju, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Erna Þorsteinsdóttir, stjórnarformaður Eskju, og Sigrún Ísaksdóttir, skrifstofustjóri hjá Eskju.

Sjávarútvegsfyrirtækið Eskja á Eskifirði hefur samið við Skógræktina um að þróa kolefnisverkefni í landi jarðarinnar Freyshóla á Fljótsdalshéraði. Þar hyggst fyrirtækið binda kolefni með nýskógrækt á um 30 hektara svæði. Gróðursetningu á að ljúka vorið 2023 og með verkefninu verða til vottaðar kolefniseiningar sem tryggja ábyrga kolefnisbindingu á móti samsvarandi losun vegna starfsemi Eskju. Með þessu verður Eskja fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið sem ræðst í ábyrga kolefnisjöfnun sam­kvæmt kröfum Loftslagsráðs.

Hlutverk Skógræktarinnar er að gera ræktunaráætlun fyrir svæðið, verkefnalýsingu fyrir kolefnis­verkefnið ásamt kolefnisspá og kostnaðaráætlun til 50 ára. Verkefnið skal fullnægja kröfum Skógar­kolefnis þannig að það sé tækt til vottunar óháðs vottunaraðila til skráningar í Loftslagsskrá Íslands. Loks veitir Skógræktin aðra ráðgjöf sem Eskja kann að óska eftir við þróun verkefnisins.

Gert er ráð fyrir að undirbúningi ljúki fyrir árslok og framkvæmdir hefjist næsta vor með undirbúningi lands. Gróðursett verður í byrjun og lok næsta sumars og gróðursetningu lýkur vorið 2023. Þá verður fullgróðursett í svæðið og við tekur vaxtartími skógarins með reglulegum úttektum. Gangi allt að óskum verða fyrstu vottuðu einingarnar til að fimm árum liðnum frá því að gróðursetningu lýkur.

Eskja sérhæfir sig í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski sem ýmist eru frystar eða framleitt  úr hágæða fiskimjöl og lýsi. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum ráðist í ýmsar aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum starfsemi sinnar en í dag er landvinnsla félagsins knúin rafmagni. Sem dæmi má nefna byggði félagið uppsjávarfrystihús 2016 og flutti þar með frystingu sjávarfangs af sjó og í land þar sem notað er raf­magn í stað olíu. Árið 2012 var mjöl- og  lýsisvinnsla Eskju rafvædd að fullu. Við endurnýjun skipaflota hefur Eskja lagt og mun leggja áherslu á sparneytnari skip og  draga markvisst úr olíunotkun fyrir­tækisins. Eskja hefur nú hafið útgáfu á árlegri samfélagsskýrslu þar sem notuð eru viðmið Global Reporting Initiative um samfélagslega ábyrgð. Kolefnisspor er mælt samkvæmt forskrift SFS/Nasdaq. Með þessu eykur fyrirtækið gagnsæi í starfseminni, m.a. með því að gefa upplýsingar um umhverfis­áhrif og mótvægisaðgerðir og gera grein fyrir árangri í umhverfismálum.

 


Athugasemdir

Nýjast