Heimir Örn Árnason og Bjarni Fritzson, leikmenn handknattleiksliðs Akureyrar, og nú verðandi þjálfarar þess, skrifuðu í gær undir tveggja ára samning um að taka við þjálfum Akureyrarliðsins í sumar þegar Atli Hilmarsson lætur af störfum og verður Sævar Árnason þeim til aðstoðar. Heimir og Bjarni hafa verið tveir af burðarstólpum liðsins undanfarin ár og verða spilandi þjálfarar. Þeir félagar eru því að fara ótroðnar slóðir í þessum efnum en hvorugur þeirra hefur reynslu af þjálfun í meistaraflokki. Vikudagur hitti þá félaga eftir ráðninguna í gær.
Þetta leggst gríðarlega vel í mig, segir Heimir. Þetta er búið að taka langan tíma og við erum búnir að fara mjög vel í gegnum þetta og hvort þetta sé góður kostur og í raun hægt. Eftir að hafa rætt lengi og oft við bæði Bjarna og Sævar að þá fundum við vonandi hina gullna formúlu um að við þrír getum stjórnað þessu saman. Þetta er smá tilraunastarfssemi að vera með tvo spilandi þjálfara en ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu og hvernig þetta kemur til með að ganga verður eiginlega bara að koma í ljós. Við erum allavega mjög spenntir fyrir þessu, sagði Heimir. Í svipaðan streng tók Bjarni.
Þegar ég fékk þessa spurningu fyrst um að taka við liðinu og spila í senn fannst mér það strax spennandi og mikil áskorun. Það er einmitt það sem gefur lífinu gildi að taka áskorunum. Þeir sem þekkja mig vita líka að ég er stjórnsamur þannig að það verður fínt að hafa almennileg völd, sagði Bjarni léttur.
Ítarlegra viðtal við þá Heimi og Bjarna verður að finna í Vikudegi nk. miðvikudag.