Erum með lið til þess að snúa blaðinu við

Sex umferðum er nú lokið í N1-deild karla en stutt hlé er nú gert á deildinni vegna landsliðsæfinga og fer því næsta umferð fram eftir viku, fimmtudaginn 10. nóvember. Staða efstu liða er þannig að Fram og Haukar hafa 10 stig í tveimur efstu sætunum og FH og HK koma í 3.-4. sæti með níu stig. Þessi lið hafa skilið sig frá næstu liðum, en Valsmenn eru í fimmta sæti með 4 stig, Akureyri hefur 3 stig, Afturelding 2 stig og Grótta rekur lestina með 1 stig. Uppskera norðanmanna er rýr og staðan allt annað en góð. Liðið er 6-7 stigum á eftir efstu liðunum og má vart við að dragast meira aftur úr.
Bilið er orðið ansi mikið en ef við vinnum tvo næstu leiki að þá gæti þetta jafnast út því liðin í efri hlutanum spila innbyrðis á meðan, segir Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar um stöðu liðsins. Fyrir okkur er ekkert annað í stöðunni en að einbeita okkur að næsta leik sem er gegn Gróttu og reyna að koma okkur aftur á sigurbraut. Við erum svolítið að tapa þessum leikjum á okkar mistökum og þetta eru enginn stórtöp. Við erum inni í öllum þessum leikjum og það sýnir að við erum með lið til þess að fara upp á við þegar við höfum endurheimt alla okkar leikmenn. Við höfum ágætis tíma núna til þess að vinna í því. Við fengum Heimi (Örn Árnason) inn í síðasta leik og nú þarf hann að koma sér í betra form og vonandi nýtist þessi tími í það. Þessi vikar fer í að koma líkamlegu ástandi leikmanna í lag, segir Atli.
Nánar er rætt við Atla um stöðu Akureyrar í N1-deildinni í Vikudegi sem kemur út í dag.