Erum í erfiðri brekku
Það gengur hvorki né rekur hjá KA-mönnum þessa dagana í 1. deild karla í knattspyrnu. Liðið hefur nú tapað síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni og aðeins unnið einn leik af síðustu níu. KA á erfiðan útileik fyrir höndum í kvöld er liðið sækir ÍR heim í 13. umferð deildarinnar.
Eftir 3:0 sigur Leiknis gegn HK í gær í fallslag í 1. deildinni er KA komið fallsæti með tíu stig í ellefta sæti, með jafnmörg stig og Leiknir en lakari markatölu, og HK rekur lestina með fimm stig. KA á þó leik til góða á bæði lið í kvöld.
Það er ljóst að eitthvað mikið er að í herbúðum KA, sem stendur frammi fyrir bullandi fallbaráttu seinni hluta Íslandsmótsins. Vikudagur heyrði í Gunnlaugi Jónssyni þjálfara KA og spurði hann út í stöðu liðsins í deildinni.
„Úrslitin er okkur ekki alveg hliðholl og þegar lið fara að tapa að þá minnkar sjálfstraustið. Á móti kemur að í mörgum þessara leikja hefur verið stutt á milli. Eins og leikurinn þróaðist á móti Leikni í síðasta leik að þá eru atriði sem eru okkur óhagstæð varðandi dómgæslu. Við getum samt ekkert afsakað okkur með einu eða neinu en þetta er bara það sem fylgir liði sem er í erfiðri brekku,“ segir Gunnlaugur.
Nánar er rætt við Gunnlaug í Vikudegi sem kom út í gær.