Bandaríska fjárfestingar- og fasteignaþróunarfélagið JL Properties, sem er með aðsetur í Anchorage í Alaska, er að ganga frá kaupum á eignarhaldsfélaginu Keahótelum, einni stærstu hótelkeðju landsins. Það er Vísir sem greinir frá þessu í morgun
Keahótel reka samtals átta hótel víðsvegar um landið, meðal annars Hótel Borg og Apótek Hótel í Reykjavík. Heildarkaupverð á hótelkeðjunni verður í kringum sex milljarðar króna.
Samkvæmt Vísi standa yfir viðræður við fjárfestingarfélagið Varða Capital um að það hafi einnig aðkomu að viðskiptunum og kaupi um það bil fjórðungshlut. Eigendur Varða Capital eru Grímur Garðarsson, Jónas Hagan Guðmundsson og Bandaríkjamaðurinn Edward Mac Gillivray Schmidt.
Ekki hefur enn verið endanlega frágengið hvort JL Properties muni kaupa allt hlutafé Keahótela en viðræður hafa staðið yfir við fjárfestingarfélagið Varða Capital um að það hafi einnig aðkomu að viðskiptunum og kaupi um það bil fjórðungshlut, samkvæmt heimildum Markaðarins. Fjárfestingarfélag þeirra kom meðal annars að fjármögnun lúxushótelsins við Hörpu og er í hópi stærstu hluthafa Kviku banka með um 7,7 prósenta hlut.
Hluthafar Keahótela settu félagið í söluferli í ársbyrjun, eins og greint var frá í Markaðnum 1. febrúar síðastliðinn. Það voru einkum erlendir fjárfestar sem sýndu hótelkeðjunni áhuga.