Erlendir ferðamenn sluppu með skrekkinn þegar rúta lenti ofan í Blautulóni

Litlu munaði að illa færi fyrr í dag þegar rúta full af tékkneskum ferðamönnum lenti ofan í Blautulóni á Fjallabaksleið nyrðri. Tékkarnir, sem eru 22 talsins, komust allir á þurrt af sjálfsdáðum og gátu hringt eftir aðstoð.  Voru björgunarsveitir frá Vík, Klaustri, Skaftártungu og Álftaveri kallaðar út en Flugbjörgunarsveitin Hellu var fyrst á staðinn en hún var í hálendisvakt björgunarsveita á svæðinu þegar kallið kom.   

Samkvæmt fyrstu fregnum virðist sem hópurinn hafi ekki haldið saman eftir atvikið en 11 manns komust í kofa í Skælingum, sjö voru saman í hóp við Blöndulón og fjórir annarsstaðar á svipuðum slóðum. Er fólkið bæði blautt og kalt. Ferðafólkinu verður ekið til Víkur í Mýrdal þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins á staðnum taka á móti því, segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Nýjast