Erlendir ferðamenn í vanda í Skyndidalsá

Fyrr í dag lentu erlendir ferðamenn í hættu í Skyndidalsá þegar þeir óku í ána á röngum stað þannig að hún reif bíl þeirra með sér og bar hann um 50 metra niður með straumnum. Um var að ræða svissnesk hjón á besta aldri sem voru á leið í Lónsöræfi. Þegar bíllinn stöðvaðist í ánni komu þau sér upp á þak bílsins og náðu að hringja eftir aðstoð þrátt fyrir að símasamband sé afar stopult á svæðinu.  

Hringdu þau í lögregluna í Sviss sem lét Neyðarlínuna vita. Gátu þau sagt númer vegarins sem þau óku (F980) og að þau væru stödd í á. Dugði það til að Björgunarfélag Hornafjarðar, sem var samstundis kallað út, gat komið fólkinu til aðstoðar ekki svo löngu síðar. Svissnesku hjónunum var snarlega bjargað af þaki bílsins og voru þau í fínu ástandi enda veður gott, sólskin og blíða. Bíllinn, sem er bílaleigubíll, var svo dreginn úr ánni en hann er mikið skemmdur, jafnvel ónýtur, enda flæddi alveg upp undir þak á honum, segir í fréttatilkynningu Landsbjargar. 

Nýjast