Heildarfjöldi erlendra ferðamanna árið 2011 var tæplega 566 þúsund og er um að ræða 15,8% aukningu frá 2010 en þá voru erlendir ferðamenn tæplega 489 þúsund talsins. Hafa ferðamenn aldrei verið fleiri á einu ári. Langflestir erlendra ferðamanna eða 95,6% fóru um Keflavíkurflugvöll, 2,2% með Norrænu um Seyðisfjörð og 2,2% um Reykjavíkur-, Akureyrar- eða Egilsstaðaflugvöll.
Vert er að taka fram að tölur fyrir aðra staði en Keflavíkurflugvöll byggja ekki á eiginlegum talninum heldur mati út frá sölu- og farþegatölum. Þar fyrir utan eru farþegar með skemmtiferðaskipum en tæplega 63 þúsund farþegar komu til Reykjavíkur með 67 skipum árið 2011, 10,6% færri en á árinu 2010 þegar þeir voru um 70 þúsund talsins. Um 95% skemmtiferðaskipa til landsins hafa viðkomu í Reykjavík, segir í frétt frá Ferðamálastofu.