"Erlendir ferðamenn eru aðeins farnir að sjást hér og farþegar af skipinu litu margir hverjir við í Hofi og skoðuðu sig um," segir Sigríður María Hammer umsjónarmaður á Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Menningarhúsinu Hofi. Hún segir að yfirhöfuð sé ekki mikið um erlenda ferðalanga á Akureyri í maí, aðal ferðamannatíminn hefjist um eða upp úr miðjum júní. „Það er stundum eins og manni finnst vera ýtt á takka einn daginn og ferðamannatímabilið hefjist formlega. Um miðjan júní byrjar straumurinn og heldur sér fram á haust," segir hún.
Sigríður María segir að sumarið lofi góðu og búist sé við að fjöldi ferðamanna muni leggja leið sína til landsins. „Þeir sem best þekkja til telja að hingað komi fleiri ferðamenn í ár en komu í fyrra, en þá datt þetta svolítið niður m.a. vegna gossins í Eyjafjallajökli. Nú held ég að áhugasamir ferðamenn leggi leið sína til Íslands til að sjá jökulinn og ummerki gossins," segir hún.
Á Umferðamiðstöð SBA-Norðurleiðar fengust þær upplýsingar að erlendir ferðamenn væru komnir á stjá, en straumurinn færi að aukast þegar liði að mánaðamótum. Flestir þeirra færu í skoðunarferð í Mývatnssveit.