Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir að fyrirspurnir hafi komið frá erlendum flugfélögum varðandi samgöngur frá Akureyrarflugvelli. Lengi hefur verið unnið að því að koma á reglulegu beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll og eru góðar samgöngur eitt því sem skiptir höfuðmáli.
„Erlend flugfélög sem við höfum verið í viðræðum við hafa haft áhyggjur af því hvernig farþegar komist frá vellinum, hvort samgöngur séu reglulegar, aðgengilegar og hver kostnaðurinn sé,“ segir Arnheiður.
Eins og Vikudagur hefur fjallað um hefur forstjóri Air Iceland Connect sent bréf til bæjaryfirvalda á Akureyri þar sem samgöngur frá flugvellinum eru gagnrýndar og sagðar ábótavant. Flugfélagið hefur skorað á Akureyrarbæ að hefja strætóferðir á Akureyrarflugvöll.
Arnheiður segir að auk erlendra flugfélaga hafi íslenskar ferðaskrifstofur lýst áhyggjum sínum af því að ekki séu reglulegar samgöngur við flugvöllinn. Hún segir skort á samgöngum geta haft neikvæð áhrif á eflingu ferða þjónustu á svæðinu.
„Þetta hefur kannski ekki úrslitaáhrif hvað varðar að koma á reglulegu beinu flugi, en góðar samgöngur eru eitt af því sem gerir staðinn eftirsóknarverðan. Þar af leiðandi gefur þetta neikvæðari mynd af áfangastaðnum en það þyrfti að gera,“ segir Arnheiður.
Hún bendir á að þar sem leigubílar séu mikið til uppteknir vegna skemmtiferðaskipa á sumrin sé önnur staða uppi á flugvellinum í dag heldur á árum áður. „Með aukinni umferð um flugvöllinn þarf að skoða bættar samgöngur og mér finnst satt að segja undarlegt að á Akureyri séu ekki almenningssamgöngur út á flugvöll því þannig er það á flestum öðrum stöð um,“ segir Arnheiður.
Eins og fram kom í síðasta blaði telja bæjarfulltrúar sem Vikudagur ræddi við að strætóferðir á flugvöllinn séu bæði kostnaðasamar og flóknar. Málið sé þó í skoðun og vænlegast sé að strætisvagn gangi meðfram strandlengjunni.