Erilsöm nótt hjá lögreglu „en engin stórheit“

Lögregla aðstoðaði vegna umferðaróhappa, aðstoðaði sjúkralið vegna sjúkraflutninga, hafði afskipti í…
Lögregla aðstoðaði vegna umferðaróhappa, aðstoðaði sjúkralið vegna sjúkraflutninga, hafði afskipti í nokkur skipti vegna ölvunar og hávaða og ónæðis. Mynd á facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Tiltölulega rólegt var hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra í gær, miðað við oft áður um þessa stóru ferðahelgi. „Þó var gærdagurinn og nóttin á köflum erilsöm en engin stórheit,“ segir lögregla á facebook síðu sinni.

 Í gær hafði lögregla afskpti af manni sem lét ófriðlega í bílaleigu Brimborgar á Akureyri. Lögreglumenn náðu að leysa málið á staðnum en það tók drykklanga stund og þurfti að taka manninn tökum og færa hann út úr húsnæði Brimborgar. Maðurinn var afar reiður en lögreglumönnum tókst að róa hann og leysa málið á fagmannlegan hátt án eftirmála.

Lögregla aðstoðaði vegna umferðaróhappa, aðstoðaði sjúkralið vegna sjúkraflutninga, hafði afskipti í nokkur skipti vegna ölvunar og hávaða og ónæðis. Lögregla er með aukinn viðbúnað um helgina varðandi umferðareftirlit og er mikið á ferðinni um umdæmið. Meðal annars var umferðareftirlit úr þyrlu í gær í samstarfi við Landhelgisgæsluna.

Um 30 umferðarlagabrot

Um tuttugu voru kærðir í gær fyrir umferðarlagabrot, hraðakstur og önnur brot og eru samtals brot á umferðarlögum nær þrjátíu. Lögregla aðstoðaði vegna hópamyndunar og ölvunar við Sjallann á Akureyri í nótt og náðist að leysa það upp áður en til mikilla átaka kom. Slagsmál brutust síðan út á Ráðhústorgi við veitingastaðinn Vamos utandyra og síðan var veist að dyraverði þar innandyra og ráðist á hann. Málið er í rannsókn. Tveir voru teknir í nótt vegna ölvunar- og vímuefnaaksturs og einn fyrir að flytja farþega án öryggisráðstafana, í skotti bifreiðar. Fleiri afskipti voru af ölvuðum einstaklingum og í einhverjum tilfellum fær barnavernd að frétta af þeim afskiptum. „Heilt yfir voru menn þó að skemmta sér prúðmannlega en segja má þó eins og svo oft áður að ,,ölvun var allnokkur",“ segir í frétt lögreglunnar.


Athugasemdir

Nýjast