Eins og fram kom í Vikudegi nýlega, hefur sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkt að stöðva beri þegar í stað alla efnistöku úr Eyjafjarðará og óshólmasvæði árinnar vestan Eyjafjarðarbrautar eystri, hafi ekki verið gefin út formleg framkvæmdaleyfi. Þetta sé m.a. gert vegna aukinnar ásóknar í efnistöku úr ánni og að ákveðnir aðilar sæki ekki um leyfi eins og þeim beri samkvæmt lögum. Guðmundur segir að fyrirtæki sitt hafi sótt um leyfi til efnistöku á leirunum en það hafi hins vegar gengið ansi treglega að fá formleg svör við þeim. "Ég sótti um þann 26. mars sl. og eftir þó nokkuð stapp fengum við munnlegt leyfi til hefja framkvæmdir en það hefur enn ekkert formlegt svar við erindi okkar borist. Á meðan við biðum svars tókum við sand úr Eyjafjarðará í landi Vagla. Þar hafði ekki verið gerð krafa um að sótt yrði um leyfi til sveitarfélagsins fyrr við hófum framkvæmdir í vor og þá strax var farið að senda okkur bréf þessa efnis. Ég sá ekki ástæðu til að hlaupa eftir þeim kröfum þar sem ekkert bólaði á formlegu svari varðandi efnistöku á leirunum."
Guðmundur sagði að starfsmenn fyrirtækisins hefðu lagt sig fram um að ganga vel um og haga sandnáminu þannig að ekki verði breyting á farvegi árinnar. "Einnig höfum við farið eftir ábendingum veiðifélagsins og mér vitanlega gert þetta í sátt við veiðifélagið. Sveitarstjórnin hefur hins vegar hótað að stöðva framkvæmdir með lögregluvaldi oftar en einu sinni. Ég held að opinberir starfsmenn leggi allt of mikla áherslu á foræðishyggju í stað þess að veita íbúunum þjónustu." Guðmundur segir að þegar leyfi hafi verið gefin út, hafi þau gilt í allt of stuttan tíma. Það sé ekki nóg að hafa leyfi í 6-8 vikur í senn, þar sem verð sé að vinna með efni allt sumarið og fram á haust og jafnvel árið um kring. "Það fyllti þó mælinn þegar sveitarstjórn fór að skipta sér af því hvernig landeigendur standa að því að selja efni á leirunum. Þá þykir það líka afskaplega skrýtið að settar hafa verið takmarkanir á því hvaða daga má vinna þarna og á hvaða tíma sólarhrings."
Að sögn Guðmundar er það ekki skýrt að mati lögfræðinga að sækja þurfi um leyfi til sveitarfélagsins varðandi efnistöku, heldur aðeins til Landbúnaðarstofnunar. "Það er allt í lagi að sækja um leyfi til framkvæmda til sveitarfélagsins en þá þurfa svörin að berast fyrr, leyfin að vera til lengri tíma og án skilyrða sem ekki eru rök fyrir. Einu rökin sem ég hef heyrt frá þeim sem eru á móti þessari efnistöku, eru að þetta skaði lífríki árinnar. Það er ótrúlegt að leyfa sér að halda því fram, því það sem við gerum í ánni á hverju ári er margfalt minna en náttúran sjálf gerir á örfáum sekúndum í minnstu leysingum."