Erfitt að láta enda ná saman eins og endranær

Vinna við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 stendur nú sem hæst í Grýtubakkahreppi.  Annarri umræðu um áætlunina sem vera átti á fundi sveitarstjórnar á mánudag var frestað. Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri segir í pistli sem hún skrifar á vefsíðu hreppsins að eins og endranær sé erfitt að láta enda ná saman, „en vonandi þarf ekki að skera mikið niður.” Engar kreppufjárhagsáætlanir hafi fram til þessa verið gerðar hjá Grýtubakkahreppi og vonast sveitarstjórinn til að svo verði einnig nú.

Starfsmönnum hefur ekki verið sagt upp en vinnuhlutfall hjá örfáum minnkað aðeins, engin breyting verið gerð í mötuneytum stofnana sveitarfélagsins og eins árs börn eru tekin inn í leikskólann.  Þá hafa framlög til Tónlistarskóla Eyjafjarðar aukist ár frá ári og flestir sem það vilja komast þar að.  Yfir 11% íbúa sveitarfélagsins eru í tónlistarnámi og er það með því mesta sem gerist í landinu. Þá nefnir Guðný að framkvæmdir í hreppnum á þessu ári hafi verið með því mesta sem gerist og ekki voru tekin lán til að fjármagna þær.

Nýjast