Er húsaleiga að sliga stofnanir í Borgum á Akureyri?
Í nóvember 2003 keypti Landsbankinn tæplega 50 prósenta hlut Íslenskra aðalverktaka í Landsafli og átti þá 75 prósenta hlut í því. Í byrjun mars árið 2007 seldi Landsbankinn Landsafl til Fasteignafélagsins Stoða, síðar Landic Property, sem var að stærstu leyti í eigu Baugs. Meðal þeirra sem leigja húsnæði í fasteigninni eru Háskólinn á Akureyri, Náttúrufræðistofnun Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Matís og Jafnréttisstofa. Allar stofnanirnar sem leigja húsnæði í Borgum eru opinberar og eru samningarnir gerðir við Fasteignir ríkissjóðs sem leigir húsið af Reitum II, áður Landsafli. Langir og óhagstæðir leigusamningar sem opinberar stofnanir eru með við einkaaðila hafa verið nokkuð í umræðunni eftir að greint var frá 25 ára óuppsegjanlegum leigusamningi sem Landlæknisembættið var með á Austurströnd á Seltjarnarnesi.
Allt að þrefalt leiguverð
Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, sem leigir skrifstofurými í húsinu segist í DV, vera óánægð með leiguskilmálana í húsinu. Jafnréttisstofa hefur verið í leigutaki í húsinu síðan árið 2004, frá því húsið var byggt. „Ég er mjög ósátt við að vera að borga svona háa leigu. Það er bara eins og við séum á Manhattan," segir Kristín. „Leiguverðið á fermetra er 4.300 krónur síðast þegar ég reiknaði þetta út. Þetta er alveg ofsalega mikið. Mér finnst þetta krimínelt," segir Kristín. Til samanburðar má geta þess að leiguverð á vel staðsettu skrifstofuhúsnæði í Reykjavík, til dæmis í miðbænum og í Borgartúninu, er á milli 1.200 og 1.800 krónur á fermetrann. Leiguverðið í Borgum er því á milli rúmlega tvisvar og þrisvar sinnum hærra en gengur og gerist með gott leiguhúsnæði í Reykjavík sem auglýst er á almennum leigumarkaði. Kristín segir að 10 milljónir króna af 50 milljóna króna framlagi sem Jafnréttisstofa fái frá íslenska ríkinu fari beint í leigu á húsnæðinu í Borgum. Samkvæmt leigusamningunum í Borgum er einungis hægt að segja leigusamningunum eftir 10 ár frá undirritun þeirra. Jafnréttisstofa, og aðrir leigutakar í Borgum, þurfa því að leigja í húsinu í um 3 ár til viðbótar áður en þeir geta leitað á önnur mið, segir m.a. í úttekt DV.
HA greiðir 130 milljónir á ári í húsaleigu
Ríkisútvarpið fjallaði einnig um málið og þar kemur fram Háskólinn sé stærsti leigutakinn í Borgum og greiði um 130 milljónir króna á ári í húsaleigu. Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir að þetta séu allt að 10% þess fjárframlags sem við skólinn fái til reksturs og því mjög hár hluti. Þetta sé verðtryggður samningur sem fylgir verðlagi og hækki eftir því sem verðbólga eykst. Fermetraleigan á mánuði í Borgum er 4.500 krónur, segir á vef RÚV. Þar segir Stefán að þessar háu húsaleigugreiðslur þýði að skólinn verði að skera niður á öðrum sviðum. Skólinn leigir í gegum Fasteignir ríkisins og nú standa yfir samningaviðræður um lækkun leigunnar. Stefán segir leiguna þurfa að lækka um allt að helming. Þannig myndu sparast um 60 til 70 milljónir á ári og það myndi skipta sköpum fyrir reksturinn. Hann kveðst ekki bjartsýnn á að þetta náist en ætlum þó að vinna að þessu máli áfram. Tekist hefur að halda rekstri skólans réttum megin við núllið undanfarin fimm ár en Stefán segir að nú verði það mjög erfitt ef ekki næst samningur um endurskoðun leigugreiðslna.
Leiguverð lægra en haldið er fram
Guðjón Auðunsson, forstjóri fasteignafélagsins Reita segir á vef RÚV, ekki rétt að Háskólinn á Akureyri og Jafnréttisstofa greiði 4.500 króna leigu fyrir fermetrann. „Mig grunar að þarna séu menn að blanda inn í rekstrartölum húsnæðisins sem er auðvitað ekki hægt að segja að fari inn í leiguverð til eiganda að húsnæðinu sjálfu. Ég undirstrika að Fasteignir ríkissjóðs eru leigutaki að Borgum, Norðurslóð 4 á Akureyri, sem framleigja síðan húsið frá sér til Háskólans, Matís, Jafnréttisstofu og fleiri þeirra fyrirtækja sem þarna eru til húsa þannig að þessir aðilar eru beina orðum sínum til rangs aðila þegar þeir beina orðum sínum til Reita," sagði Guðjón í fréttum RÚV í morgun. Guðjón segir að raunverulegt leiguverð sé því nær 2.500 krónum á fermetrann en þeim 4.500 krónum sem haldið hefur verið fram í fjölmiðlum. Sjálfur vill hann þó ekki segja hver skýringin á þessu er. „Það verða þeir að gera sem setja fram þessa tölu og halda því fram að þessi leigutala renni til Reita fasteignafélags. Það er bara alrangt."