Er fulltrúi umboðsmanns skuldara á leiðinni norður?

Bæjarfulltrúum á Akureyri var tíðrætt um embætti umboðsmanns skuldara, á fundi bæjarstjórnar í vikunni. Mjög lengi hefur verið unnið að því að fá fulltrúa frá embættinu til starfa á Akureyri en án árangurs. Nú þegar um þrjú ár eru liðin frá efnahagshruninu, sér loks fyrir endann á málinu, þó enn hafi engin dagsetning verið nefnd.  

"Síðustu fréttir eru jákvæðar, að fulltrúi embættisins sé á leiðinni. Engin dagsetning hefur þó verið nefnd," sagði Inda Björk Gunnarsdóttir. Sigurður Guðmundsson sagði að þetta mál með umboðsmann skuldara væri Vinstri grænum og Samfylkingu til skammar, þar sem þeir flokkar fara með landsstjórnina. Guðmundur B. Guðmundsson sagði það mjög sérstakt að þremur árum eftir hrun hefði enn ekki tekist að fá það í gegn að hingað kæmi fulltrúi frá embættinu til aðstoða fólk í sínum málum.

Undir það tók Hermann Jón Tómasson. "Hér býr all stór hluti landsmanna og ef miðað er við starfsmannafjöldann sem vinnur á skrifstofu umboðsmanns skuldara, þá er fullkomnlega eðlilegt að einn starfsmaður sé hér á þessu svæði," sagði Hermann Jón. Oddur Helgi Halldórsson sagði að stundum væri eins og að það byggju tvær þjóðir í landinu og það hafi m.a. birst í þessu basli við að fá hingað fulltrúa frá umboðsmanni skuldara norður.

Embætti umboðsmanns skuldara er ríkisstofnun sem heyrir undir velferðarráðherra. Meginmarkmið umboðsmanns skuldara er að bæta stöðu einstaklinga sem eiga í skulda- og greiðsluerfiðleikum og auðvelda þeim að koma greiðslubyrði og skuldastöðu sinni í ásættanlegt horf.

Nýjast