Ýmsir hafa orðið til að spyrja hvert þessi þróun leiðir, hvort um hafi verið að ræða reiðiöldu sem gengin sé yfir eða hvort vænta megi harðnandi átaka og jafnvel aukins ofbeldis á komandi mánuðum. Í erindi sínu á félagsvísindatorgi ræðir Kjartan Ólafsson þessar spurningar í tengslum við kenningar félagsfræðinnar um siðrof, frávik og félagslegt taumhald. Ennfremur um hlutverk og ábyrgð fjölmiðla við fréttaflutning af mótmælum. Fyrirlesturinn fer fram miðvikudaginn 14. janúar nk. kl. 12.00, í stofu L 201 í húsnæði Háskólans á Akureyri á Sólborg.
Kjartan er lektor við Hug- og félagsvísindadeild HA. Hann lauk meistaraprófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og hefur síðan stundað margvíslegar rannsóknir á Íslensku samfélagi, svo sem á samfélagsáhrifum stórframkvæmda og vegaframkvæmda, á frístundaiðju og fjölmiðlanotkun ungs fólks og kynjuðum staðalímyndum svo fátt eitt sé nefnt.