Enskur miðjumaður til reynslu hjá Þór

Þór fékk í morgun enskan miðjumann, Clark Keltie, til reynslu en hann mun æfa með Þórsliðinu út vikuna. Keltie er 27 ára en hann lék síðast með Lincoln City í ensku 2. deildinni.

„Hann lítur voðalega vel út á pappírnum og við bindum vonir við að semja við hann,” segir Unnsteinn Jónsson formaður knattspyrnudeildar Þórs við Vikudag.

Unnsteinn segir lítið vera um aðrar þreifingar í leikmannamálum en ljóst er að Þór verður að styrkja sig þar sem þeir Ottó Hólm Reynisson og Kristján Páll Hannesson eru á leiðinni í skóla erlendis í haust.

Þórsarar fengu nýlega Ragnar Hauksson til liðs við sig og verður hann væntanlega í hópnum hjá Þór í kvöld sem tekur á móti Keflavík kl. 19:15 á Þórsvelli í Pepsi-deildinni.  

Nýjast