Enn hefur ekki tekist að fullmanna sláturhús Norðlenska á Húsavík þó nokkrar vikur séu frá því slátrun hófst. Enn vantar um 4 til 5 starfsmenn, en þeir voru 10 þegar sláturtíð hófst. Um 120 manns eru ráðnir aukalega til starfa hjá sláturhúsi Norðlenska í sláturtíð til viðbótar við þá 45 sem fyrir eru.
Jóna Jónsdóttir starfsmannastjóri segir að færri umsóknir hafi borist nú en undanfarin haust og eins hafi fleiri en áður hætt við á síðustu stundu. Stór hluti starfsfólk kemur frá útlöndum og segir Jóna greinilegt að ferðaviljinn hafi greinilega dalað. Ef til vill gæti spilað þar inn að bólusetningar í þeim löndum sem flest starfsfólk kemur frá séu skemmra á veg komnar en hér á landi. Óbólusettir sem ferðast til Íslands þurfa að sæta sóttkví í 5 daga og það gæti einnig haft sín áhrif á ferðaviljann.
Jóna segir að jafnan sé þess gætt að halda ákveðnu hlutfalli af störfum fyrir Íslendinga en nú í haust hafi þeir ekki sóst mikið eftir störfum í sláturtíð. Atvinnulausir sem leitað hefur verið til beri fyrir sig að þeir vilja ekki binda sig fyrir þann skamma tíma sem sláturtíð stendur, í 2 mánuði ef framtíðarstarf byðist á meðan. Þá nefnir hún að æskilegt væri að fá fleiri til starfa sem búa á staðnum, því ekki sé mikið af lausu húsnæði á Húsavík um þessar mundir.
Jóna segir að vel hafi gengið að ráða í lykilstörf en um sé að ræða almenn störf sem sinna þarf í sláturtíðinni. Í einhverjum tilvikum hafi þeir starfmenn sem starfa í húsinu allt árið verið færðir til og önnur verkefni látin bíða. Áætlað er að slátra um 86 þúsund dilkum í sláturtíðinni nú í haust og er búið að slátra um 28 þúsund dilkum um þessar mundir.
/MÞÞ