Íbúar á þessu svæði hafa ekki verið sáttir við þá hugmynd að stækka húsnæði Vínbúðarinnar og þar er reyndar almenn óánægja með staðsetningu hennar við Hólabraut. Nú í vetur felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsnæði ÁTVR en það voru íbúar við Laxagötu sem sendu kæru til úrskurðarnefndar. Þá áttu framkvæmdir við viðbygginguna að vera hafnar í kjölfar útboðs.
Skipulagsnefnd frestaði afgreiðslu málsins á fundi sínum í vikunni en Edward H. Huijbens (VG) lagði fram eftirfarandi bókun: "Breyting á deiliskipulagi í norðurhluta miðbæjar (Hólabraut - Laxagata) hefur undið hressilega uppá sig eftir áramót og er nú svo komið að meirihluti íbúa á svæðinu er kominn með lögfræðistofu í málið. Að mati fulltrúa VG er þessi þróun mála endurspeglun stefnuleysis skipulagsnefndar, þar sem hún reynir frekar að sigla á milli skers og báru í álitamálum á einstökum deiliskipulagsreitum í stað þess að leggja fram heildarsýn á skipulagsmál í miðbæ Akureyrar. Slík heildarsýn er til í miðbæjarskipulagi sem lagt var fram á síðasta ári og væri nær að tekið væri á álitamálum þar innan í viðleitni að skapa heildarlausnir fyrir miðbæinn allan. Fulltrúi VG kallar eftir því að þegar horft sé til lausna á einum deiliskipulagsreit sé horft til áhrifa þeirra á stærra svæði, sem og að horft sé til þess hvernig heildarlausnir fyrir svæði eins og miðbæinn mögulega leysa úr ýmsum álitamálum sem upp geta komið á einstökum deiliskipulagsreitum."