Enn á að reikna forsendur Vaðlaheiðarganga
Fjáraukalög ársins voru samþykkt á Alþingi í morgun en með samþykktinni hefur fjármálaráðherra verið veitt heimild til að gera samning um fjármögnum Vaðlaheiðarganga, sem nemur allt að einum milljarði króna. Fram kom í máli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra að heimildir vegna Vaðlaheiðarganga yrði ekki nýttar nema í samráði við fjárlaganefnd. Það verður enginn endalegur og bindandi samningur gerður fyrr en fjárlaganefnd hefur verið upplýst um allar forsendur eins og þær þá liggja fyrir.
Steingrímur sagði jafnframt að fjármálaráðuneytið hefði ákveðið að leita til óháðs aðila til að fá fram sjálfstætt mat á reikningslegum forsendum framkvæmdarinnar. Áður hafði verið óskað eftir því að Ríkisendurskoðun endurreiknaði forsendur verkefnisins. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, sat hjá við atkvæðagreiðsluna en hún taldi ekki tímabært að veita eða nýta þessa lántökuheimild vegna Vaðlaheiðarganga. Björgvin G. Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar sagði að heimild ráðherra í lögunum vera mikið ánægjuefni og að göngin ættu eftir að verða mikil búsetu- og öryggisbót á svæðinu. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði ástæðu þess að ríkisstjórnin hafi nú ákveðið að ráðast í gerð Vaðlaheiðarganga vera samstöðu með heimamönnum á svæðinu.