Enginn vill sjá sjómannadaginn á Akureyri hverfa

Þeir félagar Rúnar Þór Björnsson formaður Nökkva og Þorsteinn Pétursson hjá Hollvinum Húna II, undirbúa nú hátíðarhöld á Akureyri vegna sjómannadagsins sem er 7. júní nk. Áhöfnin á Vilhelm Þorsteinssyni EA hefur einnig unnið að undirbúningi og „nú er í burðarliðnum tveggja daga dagskrá sem ég vona að menn hafi gaman af," segir Rúnar Þór. 

„Það vill enginn sjá þennan dag hverfa, en útlitið var þannig að enginn var að gera neitt í málinu.  Það þótti okkur leitt og fórum því af stað," segir Rúnar Þór og bætir við að sjómönnum í bænum hafi líka þótt miður ef öll hátíðarhöld í tilefni dagsins yrðu blásin af. Konráð Alfreðsson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar segir að í eina tíð hafi Sjómannadagsráð staðið fyrir hátíðarhöldum á sjómannadegi, en að því stóðu þrjú félög, Sjómannafélag Eyjafjarðar, Skipstjórnarfélag Norðurlands og Vélstjórafélagið.  Örlög þess voru að lenda í gjaldþroti og skiptu félögin þrjú með sér að greiða upp skuldir í kjölfar þess.  Á árum áður stóð sala á miðum á sjómannadansleik í Höllinni undir kostnaði við hátíðarhöld Sjómannadagsins, en að sögn Konráðs fór að draga mjög úr aðsókn sem svo varð til þess að hætt var að efna til þeirra og þar með var ekki neitt fé til reiðu til að standa undir kostnaði. Frá árinu 2005 stóð Sjómannafélag Eyjafjarðar að dagskrá í bænum, „en auðvitað er það ekki okkar hlutverk að standa að þessum hátíðarhöldum, mér sýnist að víða um land séu það sveitarfélögin sem standi fyrir þeim, en það væri auðvitað mjög gott ef við gætum fundið þessu máli farveg, því ég ímynda mér að í útgerðarbæ eins og Akureyri vilji menn ekki að  öllum hátíðarhöldum á sjómannadegi verði hætt," segir Konráð.

Áhöfnin á Vilhelm Þorsteinssyni hefur að undanförnu unnið að undirbúningi fjölskylduhátíðar að Hömrum á sjómannadaginn, en þar verður m.a. keppt í koddaslag, reiptogi og jakahlaupi, bílar og bátar verða á svæðinu og þaðan mun leggja ilm af grilluðum pylsum.  Þá verða keppnir af ýmsu tagi, fótbolta- og golfmót sjómanna, róðrarkeppni, sjósund og kappróður.  Dorveiðikeppni verður einnig á dagskránni, sýning á neðansjávarljósmyndum og Húni verður í siglingum á Pollinum svo eitthvað sé nefnt, en að lokum má nefna að sjómannadagsskemmtun verður í Sjallanum.  Upplýsingar um dagskrána verður að finna á vefsíðunum  www.nokkvi.iba.is og www.huni.muna.is

Nýjast