Óttast skemmdir á húsnæði vegna sprenginga í Höfðagöngum

Jóhann Þórarinsson og titringsmælirinn á veggnum. Mynd: epe
Jóhann Þórarinsson og titringsmælirinn á veggnum. Mynd: epe

Jóhann Þórarinsson fyrverandi lögreglumaður óttast skemmdir á húsi sínu að Sólbrekku 1 vegna titrings sem hlýst af sprengingum við gangagerð í gegnum Húsavíkurhöfða. Hann hefur fært nákvæmt bókhald yfir það hvenær hann finnur fyrir sprengingum.  "Ég hringdi í nokkur skipti í 112 og bað um lögreglu til að láta bóka þetta. Ástæðan fyrir því er að ég geri það er sú að ef maður kvartar ekki eða lætur ekki vita og svo verða skemmdir; og þessar skemmdir koma kannski seinna fram, þá hefur maður ekkert í höndunum," segir Jóhann í samtali við Skarp og dagskrain.is.

Jóhanni er umhugað um að koma því á framfæri að hjá sér skjálfi allt og titri. "Við höfum skráð hvert skipti sem við finnum titring. Hann er stundum það mikill að ef maður horfir á gluggana þá sér maður eins og rúðurnar víbri og stundum glamra glermunir í skápunum, segir hann. Jóhann hefur áhyggjur af skemmdum sem hljótast kunna af svo tíðum titringi. Mér finnst eins og sprunga á plötuskilum hér vestar í húsinu hafi gengið eitthvað til. Mér sýnist það," segir hann og er fljótur að bæta við: "En svo veit maður ekkert hvernig þetta er undir neðstu plötum, hvernig sökklarnir eru eða skolplagnir og annað slíkt."

Búið er að setja upp mæla í kjallaranum hjá Jóhanni sem eiga að nema titringinn. Það var gert í kjölfar þess að Jóhann hafði samband við Vinnueftirlitið og lét vita af þessu. "Ég veit þó ekki annað en að það hafi verið starfsmenn þessa fyrirtækis (LNS Saga, innsk.blm)  sem sjá um þetta verk, sem settu upp þessa mæla," segir hann og bætir við að hann hafi ekkert heyrt um það hvort eitthvað hafi komið út úr mælingunum. "Ég veit ekki til þess að það komi nokkur óháður aðili að þessum mælingum, hvorki Vinnueftirlitið né annað," en vill þó ekki leggja dóm á það hvort Vinnueftirlitið ætti að sjá um mælingarnar.

Dagskrain.is hafði samband við Sigurgeir Stefánsson frá Vinnueftirlitinu sem sagði að ekki hafi borist fleiri kvartanir inn á hans borð en þessi eina. Í kjölfarið hafi verið settir upp mælar til að kanna umfangið af titringnum. Það hafi verið verktakafyrirtækið LNS Saga sem hafi komið mælunum fyrir, en það er verktakinn sem sér um gangagerðina í Húsavíkurhöfða. Ekki náðist í fulltrúa frá LNS Saga við vinnslu þessarar fréttar. / epe

Nýjast