Hjalti og Lára með nýja plötu
Hjalti og Lára stefna á að gefa út sína aðra plötu 25. ágúst næst komandi og verður útgáfunni fagnað með útgáfutónleikum á Græna Hattinum og í Fríkirkjunni, Reykjavík.
„Hún heitir Árbraut eftir götunni sem Hjalti er alinn upp við á Blönduósi og nánast öll fjölskyldan hefur einhvern tíma búið við,” segir Lára í samtali við dagskrain.is.
Á bak við dúettinn Hjalti og Lára eru hjónin Hjalti Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir sem var bæjarlistamaður Akureyrar 2015. Þetta er önnur plata hjónakornanna, árið 2013 gáfu þau út plötuna Hjalti og Lára, en lagið Eina nótt af plötunni náði þriðja sæti á vinsældarlista rásar 2.
Fyrsta plata þeirra var að mestu með úrvali laga eftir aðra lagasmiði en á Árbraut kveður við annan tón. Plötuna prýða að mestu ný frumsamin lög og textar Hjalta og Láru sem eru bæði á ensku og íslensku, en Hildur Eir Bolladóttir samdi texta við eitt lag og einnig flytja þau Vornæturljóð Elísubetar Geirmundsdóttur.
„Það er eiginlega aldrei gott að nota íslenska orðið yfir folk music, þetta er ekki beint þjóðlagatónlist heldur svona akústískt þjóðlagaskotið popp,” segir Lára aðspurð um hvernig plata þetta sé og bætir við: „Við erum með hefðbundið gítar, bassi, trommur band með okkur svo erum við líka með klassísk hljóðfæri eins og horn, selló og náttúrlega fiðlu. Þessi plata er meira okkar, þetta hefur blundað lengi í okkur en einhvern vegin ekki látið verða að því fyrr en nú.”
Upptökur fóru fram á Akureyri í júní undir stjórn Stefáns Arnar Gunnlaugssonar, en fjöldi norðlenskra listamanna leika með dúóinu á plötunni.
Hjalti og Lára standa nú fyrir áheitasöfnun á Karolinafund.com þar sem hægt er að leggja útgáfunni lið og panta nýju plötuna, miða á útgáfutónleika eða einkatónleika. Söfnunin hefur gengið vel, en enn vantar herslumuninn upp á að markmið þeirra náist. /epe.
Síðu söfnunarinnar má sjá hér
Hér að neðan má hlýða á eitt lag, Yesterday is gone af nýju plötunni.