„Enginn ísskápur hvað þá frystikista á okkar heimili frekar en öðrum í þá daga“

Ingólfur Sverrisson skrifar

Eyrarpúki

Laugardagur og lífið gekk sinn vanagang í Ránargötu 16 enda voru þeir dagar hver öðrum líkir upp úr miðri 20. öldinni.  Eftir að hafa senst suður í Alaska að kaupa mjólk og brauð bað mamma mig að fara niður á Tanga í geymsluna okkar í Íshúsinu að sækja slátur og lifrarpylsu sem þar voru í geymslu ásamt öðru góðgæti. Enginn ísskápur hvað þá frystikista á okkar heimili frekar en öðrum í þá daga. Þar með var búið að hugsa fyrir kvöldmatnum en síðan fórum við mamma gjarnan í framhaldinu saman í Reykhúsið, syðst í Norðurgötunni, á fund Finnboga vinar okkar sem seldi besta  hrossakjötið. Með þessum síðustu aðgerðum var sunndagssteikin komin í hús og mér óhætt að fara út að leika mér með hinum krökkunum úr nágrenninu.

Þannig liðu laugardagarnir með leikfélögunum og saman mótuðum við með leik okkar og ærslum dýrmætan fjársjóð vináttu sem entist ævina langa.

Undir kvöld var kallað á okkur systkinin í kvöldmat og ilmur af nýsoðnu slátri og lifrarpylsu mætti okkur í dyrunum. Að lokinni dýrindis máltíð hófst undirbúningur að því að baða mannskapinn enda laugardagur. Með allan þennan krakkaskara þurfti strangt skipulag því heita vatnið úr vatnskútnum, sem kolakyndingin hafði hitað upp, var af skornum skammti.   Mamma klæddi okkur úr fötunum og stýrði svo hverju og einu inn í sturtuna þar sem pabbi tók við á stígvélum og skrúbbaði hvern og einn hátt og lágt. Að því loknu skutlaði hann öllum út til þurrkunar hjá mömmu með orðunum: „Vessogú – næsti.” Tók svo við því næsta og svo koll af kolli þar til það síðasta flaug út um leið og síðustu heitu droparnir seytluðu úr sturtunni.  Þar með voru við öll strokin og fín, komin í hrein náttföt og til alls búin.   Þessu næst var hópnum stillt upp framan við og upp á eldhúsborðið og Heimiliskórinn hóf söng sinn undir traustri stjórn pabba sem stóð fyrir framan allt liðið. Vinsælasta lagið var „Hann Siggi var lítill og frískur og frár og fyrstur með ærnar á dalinn/hann smalaði í selinu ár eftir ár þótt oft væri lítið í malinn …” Svo sungum við hvert lagið á fætur öðru  með miklum tilþrifum og fölskvalausri gleði. Áhorfendur voru mamma og Ólína frænka sem klöppuðu ákaft eftir hvert lag og við hneigðum okkur brosandi af miklum virðuleik.

Þegar konsertinum lauk var þeim yngri stefnt til koju enda komin með sand í augun og tekin að geispa á síðustu tónunum.  Við hin eldri fengum að hafa með okkur bækur í rúmin og hurfum á vit nýrra ævintýra. Sjálfur leitaði ég oftast til þeirra sem gerðu garðinn frægan í ævintýrabókum Enid Blyton sem varð til þess að ég var einlægt andvaka af spenningi.  Oft þótt mér erfitt að geta ekki tekið  beinan þátt í hinni æsilegu atburðarás bókanna þótt ég væri bara rauðhærður strákur undir dúnsæng í fjarlægu landi. Þegar þessi staðreynd rann upp fyrir mér var ekki annað að gera en að sofna vært og dreyma bara um allt það sem raunveruleikinn bauð ekki upp á.   

Ingólfur Sverrisson


Athugasemdir

Nýjast