Aðrir í stjórn félagsins eru Vilborg Jóhannesdóttir í Centro, Randver Karlsson í Siemens, Pálmi Stefánsson í Tónabúðinni, Halldór Halldórsson úrsmiður, Þórhallur Jónsson í Petromyndum og Fríður Leósdóttir í Brynju.
Að sögn Ragnars formanns sköpuðust miklar og góðar umræður á fundinum um menn og málefni. Ragnar segir engan bilbug að finna hjá kaupmönnum bæjarins þó hart sé í ári. "Við bítum í skjaldarendur og ætlum okkur að berjast áfram. Við berum okkur ágætlega en þetta er að sjálfsögðu erfitt ástand. Menn hafa trú á því að komandi sumar verði gott, það verður mikið af ferðafólki hérna og menn eru mjög bjartir fyrir sumarið."
Mikill straumur ferðafólks var til Akureyrar í vetur og segir Ragnar að kaupmenn í bænum hafi notið góðs af því. "Fólk er ágætlega ánægt með veturinn, mikill straumur var af fólki bæði vegna leikhússins í bænum og skíðasvæðisins. Þannig að það er alveg á hreinu að við njótum góðs af því. Menn eru yfir höfuð ánægðir en gera sér engu að síður grein fyrir ástandinu," segir Ragnar.