"Ég tel mig þurfa gleggri upplýsingar til að geta samþykkt svona lagað og hvaða ábyrgð og skyldur Akureyrarbær er að taka á sig í þessum efnum. Í annan stað voru átökin í Kyrrahafi mikil og blóðug. Japanar höfðu farið með hernaði gegn nágrönnum sínu í Kóreu og Kína og gengu þar mjög hart fram gegn almennum borgurum. Enn í dag eru að koma fram sagnir af voðaverkum þeirra. Ég mun aldrei viðurkenna rétt nokkurs til að beita kjarnorkuvopnum, svo hroðaleg sem þau vopn eru, en þar sem enn er ýmislegt ósagt af þessum hildarleik m.a. af hálfu Japana sjálfra af sínum hlut og þeirra ógnarverkum læt ég ógert að samþykkja svona hluti," segir Ólafur um þá ákvörðun sína að sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Sendiherra Japans var í erindi sínu að leita eftir því að bæjarstjórinn á Akureyri gerist aðili að samtökunum Mayors for Peace. Einnig óskaði hann eftir því að fá að setja upp sýningu á Akureyri á næsta ári á myndum sem teknar voru eftir kjarnorkusprenginguna á Nagasaki. Bæjarráð samþykkti að bæjarstjóri verði aðili að samtökunum og bauð sendiráðið velkomið með ljósmyndasýninguna til Akureyrar.