Endurbætur við Lundarskóla kosta vel á annan milljarð króna

Framkvæmdir við Lundarskóla. Mynd/Þröstur Ernir.
Framkvæmdir við Lundarskóla. Mynd/Þröstur Ernir.

Bæjarráð Akureyrar hefur ákveðið að ráðast í gagngera endurnýjun á húsnæði Lundarskóla vegna myglusvepps og er kostnaður við aðgerðirnar er áætlaður um 1,6 milljarðar króna. Byrjað verður á A-álmu og sú framkvæmd boðin út síðsumars 2020. Verklok verða vorið 2021. Í framhaldinu verður B-álma endurnýjuð sem og viðbygging. Einnig verður ráðist í stækkun á sal. Verklok allra framkvæmda eru áætluð seinni hluta ársins 2021, er fram kemur á vef Akureyrarbæjar.

Þar segir að þrír kostir hafi verið metnir í stöðunni; að ráðast í gagngera endurnýjun, rífa A- og B-álmur skólans og endurbyggja frá grunni eðarífa allar byggingar á lóðinni og reisa nýjar. Í bókun meirihluta bæjarráðs segir m.a. tekið sé undir bókun fræðsluráðs frá 15. júní sl. þar sem fram kom að í ljósi fyrirliggjandi gagna taki endurbætur stystan tíma og raska þar með skólastarfi minnst auk þess sem þær munu fullnægja þörfum nútíma skólastarfs.

Gagnrýni ákvörðunina

Bæjarfulltrúar Sjálftstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni. Oddviti flokksins, Gunnar Gíslason, segir í bókun að hann telji ekki forsvaranlegt að leggja í áætlaðan kostnað við endurbyggingu í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um ástand bygginganna.

„Það er margt sem bendir til þess að kostnaður verði mun meiri en áætlaður er. Ég tel að miðað við þær upplýsingar sem ég hef aflað mér um kostnað við nýbyggingu verði heildarkostnaður endurbóta við A og B álmu ríflega 80% af þeim kostnaði. Það sem er alvarlegt að mínu mati er að áfram verður helmingur af kennslurými Lundarskóla í kjallara, þótt grafið verði frá honum að hluta og ekki er tryggt að núverandi vandi verði leystur til frambúðar. Það eru til lausnir til að brúa skólahald á meðan eldri byggingar eru rifnar og nýjar byggðar sem geta verið mjög ásættanlegar í takmarkaðan tíma. Það er ekkert sem bendir til þess að það hafi neikvæð áhrif á faglegt skólastarf þótt skólastarfið fari fram í bráðabirgðahúsnæði um tíma. Það að fara í nýbyggingu getur þýtt það að skólastarfið þarf að vera einu til tveimur árum lengur í bráðabirgðahúsnæði en það tel ég réttlætanlegan „fórnarkostnað“ sé horft til lengri tíma," segir Gunnar. 


Athugasemdir

Nýjast