Endurbætur á sundlauginni á Þelamörk formlega vígðar

Umfangsmiklar endurbætur sem gerðar hafa verið á sundlaug íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk í Hörgárbyggð voru formlega vígðar í dag að viðstöddu fjölmenni. Árni Arnsteinsson bóndi og forvígismaður í íþróttastarfi á svæðinu, klippti á borða. Með honum voru tvær stúlkur sem eru í fremstu röð í íþróttum hér á landi, þær Guðlaug Sigurðardóttir og Steinunn Erla Davíðsdóttir.  

Vígslu sundsprettinn tóku svo oddvitar sveitarfélaganna sem eiga þessi íþróttamannvirki, þeir Axel Grettisson oddviti Arnarneshrepps og Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar. Áður hafði sóknarpresturinn sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir blessað hin endurbættu mannvirki. Í tilefni dagsins verður sundlaugin svo opin til kl. 23.00 í kvöld. Einnig var dagskrá í íþróttasalnum, þar sem Guðmundur Sigvaldason sveitarstjóri Hörgárbyggðar gerði m.a. grein fyrir framkvæmdunum. Flutt voru tónlistaratriði, börn sýndu fimleika, veittar voru viðurkenningar og þá var gestum boðið upp á kaffi, kleinur og gos.

Guðmundur sagði að lokauppgjör framkvæmdanna lægi ekki fyrir, en þegar tilboðin lágu fyrir var áætlað að heildarkostnaður yrði um 127 milljónir króna. "Á verktímanum kom í ljós að nokkur aukaverk þyrfti að vinna svo að kostnaðurinn verður eitthvað meiri, en vonandi hleypur viðbótarkostnaðurinn ekki á mörgum milljónum," sagði Guðmundur.

Lægstbjóðandi var byggingarverktakinn B. Hreiðarsson ehf.  Gerður var samningur um verkið við hann og hófst hann handa 23. júní. Síðan var unnið nánast sleitulaust að verkinu til 10. desember sl., þegar sundlaugin var opnuð fyrir almenning til reynslu.

Nýjast