Elsta baðkari Húsavíkur breytt í blómaker

Sennilega er þetta fyrsta alvöru baðkar í sögu Húsavíkur og verður því að teljast ákaflega merkur gr…
Sennilega er þetta fyrsta alvöru baðkar í sögu Húsavíkur og verður því að teljast ákaflega merkur gripur. Og enn stafar frá því ilmi eins og af baðolíum og ilmsápum bæjarbúa forðum daga. Og sem sjá má, hefur verið stutt fyrir sýslumannsfjölskylduna að fara til að bregða sér í bað á stórhátíðum! Mynd: JS

Fyrir fáum vikum var  veitingahúsið Naustið  opnað í því fornfræga húsi Seli sem stendur  við Ásgarðveg 1 á Húsavík. Hjónin Sveinbjörn Guðjohnsen og kona hans Guðrún Hallgerður Eyjólfsdóttir byggðu húsið árið 1930 og  Sel mun sennilega vera fyrsta í bænum þar sem lagt var fyrir baðkari. Síkum þægindum mun Sveinbjörn hafa kynnst vestan hafs þar sem hann bjó um árabil.

Haft er  fyrir satt að sýslumannsfjölskylda Júlíusar Havsteen hafi brugðið sér yfir götuna og farið þar í bað næstu árin á stórhátíðum. Vatnssalerni voru þá fátíð á Húsavík og útikamrar víða við hús, m.a. við  Vetrarbraut næsta hús norðan við Sel. En smám saman var farið að setja upp vatnssalerni og baðaðstöðu í eldri húsum. Um svipað leyti og Sel var byggt var Hjarðarholt byggt, bæði húsin eftir sömu teikningu  og í Hjarðarholt var einnig sett baðkar.

Þegar unnið var að endurbótum á Seli í vetur, var umrætt baðkar, líklega það fyrsta í sögu Húsavíkur, enn á staðnum. Þetta er níðþungur gripur, enda úr potti og þurfti að hífa það út úr húsinu. Og nú hefur þetta fornfræga baðkar fengið nýtt hlutverk, er orðið blómaker utan við húsið sem það stóð inni í svo lengi. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. JS

 

Nýjast