Hennar hátign Elísabet önnur Bretadrottning mun hafa viðkomu á Akureyri í dag á leið sinni til Japan þangað sem hún fer í einkaerindum.
Það var í gær sem þessi boð bárust til Akureyrarstofu og að sögn Þórgnýs Dýrfjörð framkvæmdastjóra hefur gríðarlega mikið verið að gera við skipulagningu vegnamótttöku drottningar. Það má segja að við séum að vinna marga mánaða vinnu á nokkrum klukkustundum, sagði Þórgnýr í stuttu viðtali við Vikudag í morgun.
Von er á þotu drottningar, Britannica, um kl. 14.20 í dag og biður Þórgnýr alla þá sem tök hafa á að koma á Akureyrarflugvöll til að fagna komu hennar, verið sé að leggja lokahönd á prentun enskra og íslenskra fána svo hægt sé að dreifa meðal fólks.
Öryggisgæsla þarf að vera mikil enda ekki oft sem jafn háttsettur einstaklingur sækir Akureyri heim. Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður stjórnar skipulagningu í þeim efnum í nánu samráði við ríkislögreglustjóra. Björn baðst undan viðtali þegar vikudagur.is freistaði þess að ná af honum tali.
Ekki er vitað um nákvæma dagskrá heimsóknar drottningar en heyrst hefur að hún vilji gjarnan kaupa lopavarning og er verslunin Víkingurinn nefnd í því sambandi.
Sigurður Guðmundsson kaupmaður varðist allra frétta í þessu sambandi en sagðist geta staðfest að nokkuð fjölmennur hópur hefði boðað komu í verslunina kl 15.45 í dag.
Einnig hefur verið rætt að Elísabet og fylgdarlið hennar muni fara í Akureyrarkirkju og skoða Coventrygluggann svokallaða. Stefán Arnaldsson kirkjuvörður sagðist ekkert geta sagt um dagskrá dagsins nema að í dag færi fram ferming en þeirri athöfn yrði lokið fyrir kl. 15, það væri ljóst.
Baldvin, vert í Flugkaffi, sagði í stuttu spjalli við vefinn að hann hefði fengið pöntun frá skrifstofu drottningar í hina rómuðu kjötsúpu sem á boðstólunum er í Flugkaffi fyrir 56 manns og skal hann elda í hinu konunglega eldhúsi Britannica. Ég hef alltaf vitað að kjötsúpan sem byggir á gamalli uppskrift frá Jökuldal sé drottningar-, já og kóngafæði, sagði Baldvin í miklum önnum fyrr í dag.
Baldvin segist ekki ókunnur því að gefa tignum gestum að snæða td hafi Margret Þórhildur drottning áð fjórum sinnum hjá honum seinast fyrir fjórum árum þegar hún fékk sér sex pönnukökur og hálfan líter af mjólk með. ,,Margrét Þórhildur drottning Dana, Færeyinga, og Grænlendinga sagði mér að svona nokkuð hefði hún ekki fengið frá því hún var barn. Amma hennar bauð litlu prinesessunum uppá pönnukökur á sunudagsmorgnum sagði Baldvin að lokum.
Reiknað er með að Elísabet og föruneyti hennar taki flugið áleiðis til Japan um kl. 18.15 í dag.