Elín Hrönn Einarsdóttir iðjuþjálfi/ráðgjafi hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands Þátttaka í Rótarý hefur víkkað sjóndeildarhringinn og veitt mér innblástur

Elín Hrönn með félögum sínum í Rótarýklúbbi Akureyrar, Örnu Georgsdóttir fyrrverandi forseta klúbbsi…
Elín Hrönn með félögum sínum í Rótarýklúbbi Akureyrar, Örnu Georgsdóttir fyrrverandi forseta klúbbsins og Óskari Ægi Benediktssyni Mynd Óskar Ægir Benediktsson

„Rótarý hefur gefið mér margt. Félagsskapurinn er ómetanlegur – það að kynnast fólki úr ólíkum geirum og með mismunandi reynslu hefur bæði víkkað sjóndeildarhring minn og veitt mér innblástur. Ég hef einnig fengið tækifæri til að taka þátt í verkefnum sem hafa raunveruleg áhrif á líf annarra, bæði hér heima og erlendis,“ segir Elín Hrönn Einarsdóttir félagi í Rótarýklúbbi Akureyrar. Hún starfar sem iðjuþjálfi/ráðgjafi hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands.

Rótarýklúbbur Akureyrar var stofnaður árið 1938 og er því 87 ára gamall, en formlegur stofnfundur var haldinn í byrjun september það ár. Rótarýklúbburinn er starfsgreinaklúbbur og leitast er við að í honum sé fólk úr sem flestum starfsgreinum Mikið er lagt upp úr því að heimsækja fyrirtæki og stofnanir til að kynnast fjölbreyttri starfsemi í bæjarfélaginu og víðar. Félagar í Rótarýklúbbi Akureyrar komu saman fyrr í haust og fögnuðu þeim áfanga í starfi sínu að halda fund númer 4000. Vikublaðið fylgdist með fundinum.

Fann að ég hafði lítið tengslanet

Elín Hrönn er fædd og uppalin í Reykjavík, en flutti til Danmerkur rúmlega tvítug til að fara í nám. Þar í landi vann hún í nokkur ár en flutti síðan með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna og bjó þar um árabil, en í allt bjó hún erlendis í nær 13 ár.

„Þá var stefnan tekin á Ísland aftur og í fjölskyldan flutti austur á Reyðarfjörð þar sem við bjuggum í 12 ár áður en við fluttum til Akureyrar. Ég fór að vinna hjá SN og fann að ég var ekki með mikið tengslanet hér, enda lítið sem ekkert tengd samfélaginu á Akureyri. Ég heyrði af starfsemi Rótarý í gegnum samstarfsfélaga sem bauð mér að mæta á fund til að kynnast félagsskapnum og því starfi sem Rótarý stendur fyrir,“ segir hún.

Heilluð af anda klúbbsins

Ég varð fljótt heilluð af anda klúbbsins, fyrir það fyrsta var ótrúlega vel tekið á móti mér, þarna kynntist ég fjölbreytilegum hópi fólks sem ég hefði aldrei kynnast annars og þeim fjölbreyttu tækifærum og upplifunum sem boðið er upp á. Þetta heillaði mig við starfsemi Rótarý og því ákvað ég að gerast Rótarýfélagi, en ég gekk í klúbbinn í mars 2022. Mér fannst líka heillandi að fá að vera hluti af alþjóðlegu neti einstaklinga sem vilja gera heiminn betri. Fyrir mér er Rótarý ekki bara klúbbur – það er samfélag hugsjónafólks sem vill gera gagn. Og það er mér sannur heiður að fá að vera hluti af því

Nýjast