Eldur í gámi hjá GPO á Akureyri
Slökkvilið og lögregla á Akureyri voru kölluð út að húsakynnum fyrirtækisins GPO við Súluveg 2 rúmlega fimm í morgun vegna elds í gámi. Um er að ræða framleiðslu á eldsneyti úr úrgangsplasti.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri reyndist eldurinn hins vegar staðbundinn í búnaði, sem var inni í gámi í verksmiðjunni. Eldvarnarbúnaður lokaði gámnum og slökkvikerfi fór í gang inni í honum. Eldurinn breiddist því ekki út um fyrirtækið. Talsverðan reyk lagði um allt, en slökkvistarf gekk vel. Eldsupptök eru enn ókunn.