Eldsvoði á Akureyri

Mynd úr safni
Mynd úr safni
Eldur kom upp í litlu bifreiðaverkstæði við Fjölnisgötu á Akureyri laust eftir klukkan hálfeitt í nótt. Verkstæðið er í einu bili í stærra húsnæði, og breiddist eldurinn fljótt út í þrjú bil til viðbótar. Einn maður var að störfum á verkstæðinu þegar eldurinn kviknaði. Hann komst út af sjálfsdáðum og hringdi á slökkvilið um kl. 00.40.
 
Þetta kemur fram á Rúv.
 
Vigfús Bjarkason, varðstjóri hjá Slökkviðlið Akureyrar, segir í samtali við Rúv eldsvoðann hafa verið töluvert stóran og skemmdir miklar.
 

Eldurinn náði að læsa sig í þak verkstæðisins og breiðast þannig út í næstu bil. Bílaverkstæðið og glerverkstæði í næsta bili eru ónýt, og rafeindaverkstæði og hobbíverkstæði í tveimur til viðbótar illa farin. Bíll sem var inni á verkstæðinu er gjörónýtur. Rjúfa þurfti töluvert mikið af þakinu til að komast fyrir eldinn.

Allt tiltækt lið var kallað út, þar á meðal liðsauki frá Isavia á Akureyrarflugvelli. Á bilinu 15 - 20 manns fóru á vettvang á þremur dælubílum, einum körfubíl og þremur sjúkrabílum. Enginn slasaðist þó og fólki stafaði ekki hætta af eldinum. Nærliggjandi byggingar voru heldur aldrei í hættu, að sögn Vigfúsar. Slökkvistarfi lauk að mestu um hálffjögur, en vakt er enn á staðnum og verður fram eftir morgni. 

Eldsupptök eru ókunn en málið er í rannsókn, segir á vef Rúv.

 

Nýjast