Eldra fólk sem ekki keyrir getur einangrast heima hjá sér

Ásdís Árnadóttir segir enga þjónustu í boði í Hagahverfi, sækja þurfi alla þjónustu út fyrir hverfið…
Ásdís Árnadóttir segir enga þjónustu í boði í Hagahverfi, sækja þurfi alla þjónustu út fyrir hverfið og þangað gangi ekki einu sinni strætisvagn. Mynd: MÞÞ

„Það er töluverður hópur eldra fólks búsett í Hagahverfi en þar er ekki nokkur einasta þjónusta í boði. Allt þarf að sækja út fyrir hverfið og á eigin bíl því strætisvagnar ganga ekki um þetta nýjasta hverfi Akureyrarbæjar,“ segir Ásdís Árnadóttir, ríflega áttræður íbúi í hverfinu. Hún hefur barist fyrir því að eldri borgarar gætu keypt íbúð í fjölbýlishúsi miðsvæðis í bænum þar sem einhver þjónusta er innan seilingar.

Ásdís flutti nýverið í Hagahverfið og segir að engin einasta þjónusta sé í boði í hverfinu, allt þurfi að sækja út fyrir það. Og á eigin bíl eða þiggja far með öðrum. Um þó nokkuð langan veg þurfi að fara til að komast í næstu verslun, sem er Bónus nyrst í Naustahverfi. „Fyrir eldri borgara er of langt að fara þangað fótgangandi, þannig að grípa þarf til bílsins líkt og með hvaða þjónustu aðra sem þörf er á.

Enginn strætó fer um hverfið

Engin strætisvagn gengur inn í Hagahverfi að sögn Ásdísar. Næsti vagn stoppar við gamla bæinn að Naustum og fyrir þá sem búa syðst í hverfinu er um að ræða tæplega kílómetra langan gang. Ásdís kveðst hafa spurst fyrir hjá Strætisvögnum Akureyrar um hvort ekki yrði gerð breyting á leiðarkerfi þannig að vagn æki um Hagahverfið. Þau svör fengust að engin áform væru uppi um slíkt. „Þannig að við eldri borgara verðum að fara á eigin bílum og þeir sem ekki geta lengur keyrt vegna aldurs  eða eiga einhvern að sem er til í skutl, eiga það á hættu að einangrast heima hjá sér,“ segir hún.

Félagsstarf aldraðra er öflugt en það þarf að sækja út fyrir hverfið eins og annað. Sjálf segist Ásdís hafa sótt þrjá viðburði einn daginn í vikunni, kaffiboð, fyrirlestur og íþróttir og gerði vart annað allan daginn. „Það fór allur dagurinn í að keyra á milli,“ segir hún.

/MÞÞ


Nýjast